Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins heldur áfram að bæta við sig í Regin með kaupum á um tveggja prósenta hlut í fasteignafélaginu. Sjóðurinn heldur nú á 12,3 prósenta hlut í félaginu, samkvæmt nýlegum lista yfir stærstu hluthafa þess, en til samanburðar var eignarhlutur sjóðsins sjö prósent í lok febrúar.

Lífeyrissjóðurinn hefur verið virkasti fjárfestirinn á íslenskum hlutabréfamarkaði undanfarnar vikur, frá því að markaðurinn tók dýfu seint í febrúar, og hefur bætt við hlut sinn í f lestum skráðum félögum.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins flaggaði því í Kauphöll í fyrri hluta mars þegar hann eignaðist yfir tíu prósenta hlut í Regin – og varð þar með stærsti hluthafi fasteignafélagsins – en síðan þá hefur sjóðurinn haldið áfram að bæta við sig í félaginu. Er 12,3 prósenta hlutur sjóðsins nú metinn á tæplega fjóra milljarða króna miðað við núverandi gengi hlutabréfa í Regin.

Gengi bréfanna hefur lækkað um ríflega fimmtung undanfarnar fimm vikur en sé litið til síðustu tólf mánaða nemur lækkunin um tólf prósentum.