Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) bætti við eignarhlut sinn í Arion banka um tæplega 0,8 prósentur, fyrir jafnvirði um 1.300 milljónir króna, þegar hann keypti hluta af þeim bréfum sem bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital seldi í gær fyrir samtals 11,4 milljarða.

Í flöggun til Kauphallarinnar rétt í þessu kemur fram að A-deild LSR, stærsti lífeyrissjóður landsins, hafi aukið við hlut sinn í bankanum um 13,63 milljónir hluta að nafnverði og fari nú með samtals 5,67 prósenta hlut. Samanlagður eignarhlutur LSR, þegar einnig er tekið tillit hlutar B-deildar sjóðsins, nemur eftir kaupin um 7,3 prósentum og er hann eftir sem áður fjórði stærsti hluthafi Arion banka.

Miðað við núverandi markaðsgengi er hlutur LSR metinn á liðlega 11 milljarða króna.

Taconic Capital, sem hefur verið langsamlega stærsti hluthafi Arion banka um talsvert skeið, samþykkti eftir lokun markaða í gær tilboð fyrir samtals 120 milljónir hluta að nafnverði á genginu 95 krónur á hlut, eins og Markaðurinn hefur áður upplýst um. Eftir þá sölu minnkar eignarhlutur sjóðsins úr 23 prósentum í 16 prósent.

Taconic stefndi að því að selja allt að tíu prósenta hlut með tilboðsfyrirkomulagi (e. accelerated bookbuild offering), eins og Markaðurinn greindi frá síðastliðinn laugardag, en það voru Fossar markaðir sem voru ráðgjafar vogunarsjóðsins við söluna.

Fjárfestar höfðu frest til klukkan sex í gær til að skila inn tilboðum í hlut Taconic.

Ekki fást staðfestar upplýsingar um hvaða fjárfestar keyptu hlutinn af Taconic, til viðbótar við LSR, en leitað hafði verið meðal annars til íslenskra lífeyrissjóða, verðbréfasjóða, fjárfestingafélaga og tryggingafélaga.

Hlutabréfaverð Arion banka hefur lækkað um liðlega 1,14 prósent í um 11,9 milljarða króna veltu í Kauphöllinni í dag.