Í Markaðnum í síðustu viku birtist grein eftir Hörð Ægisson um nýútgefna bók Sigurðar Más Jónssonar, „Afnám haftanna – Samningar aldarinnar?“. Hörður fer fremur mjúkum höndum um bók Sigurðar að mati þess sem hér ritar því hún er um margt meingölluð. Megintesa bókarinnar virðist vera sú að hin árangursríka niðurstaða á árinu 2015 varðandi uppgjör slitabúa föllnu bankanna hafi þrátt fyrir tilhneigingu „kerfisins“ til að draga lappirnar, fyrst og fremst fengist vegna stefnufestu þáverandi forsætisráðherra og aðkomu aðila utan stjórnsýslunnar. Undirtesa verksins er að lítið hafi verið gert til að vinna að losun fjármagnshafta áður en ríkisstjórn hans kom til valda.

Til að undirbyggja þessar kenningar þarf ýmsar fullyrðingar sem eru ýmist rangar eða villandi, auk þess sem heilu kaflana vantar í heildarsöguna. Ég er ekki viss um að hér sé endilega um ásetning af hálfu höfundar að ræða. Hann geldur hins vegar fyrir lélega heimildarvinnu og tekur líklega sjálfsupphefjandi sögur ónafngreindra heimildarmanna góðar og gildar. Trúverðugleiki bókarinnar hefði orðið meiri ef hann hefði líka leitað í smiðju þeirra sem stóðu í stafni í þessu máli í Seðlabankanum. Í stuttri blaðagrein er ekki hægt að fjalla um allar missagnir í bókinni né fylla í allar eyður en nokkur atriði eru rakin hér á eftir. Þörf er á að gera ítarlegri greinargerð um málið í heild en það bíður betri tíma.


Vatnaskil í ársbyrjun 2015


Hörður vill réttilega leggja meiri áherslu en gert er í bókinni á hlut Seðlabankans í því að skapa þá vígstöðu gagnvart kröfuhöfum slitabúa föllnu bankanna árið 2012 sem svo vel vannst úr á árinu 2015. Hann dregur líka skýrar fram að vatnaskil urðu í vinnunni við losun hafta þegar hún var endurskipulögð í janúar 2015. Það vantar hins vegar að draga fram að það varð einnig viss stefnubreyting á fyrstu mánuðum ársins 2015 frá þeim hugmyndum sem höfðu töluverðan hljómgrunn í fyrri ráðgjafar- og framkvæmdahópum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og margir álitsgjafar hömpuðu einnig. Þær fólust í afbrigðum og mismunandi blöndum af „gjaldþrotaleið“, „krónuvæðingarleið“ og því sem kallað var „gjaldeyririnn heim“. Þá var um leið oft lögð áhersla á að heimili og fyrirtæki yrðu losuð úr höftum annaðhvort samtímis og slitabú og aflands­krónueigendur, eða á undan.

Því er ekki að leyna að ég hafði töluverðar efasemdir um þessar hugmyndir þar sem ég taldi þær bæði efnahagslega og lagalega áhættusamar og betri í boði. Það fór enda svo að sú leið sem farin var við losun fjármagnshafta á árunum 2015-2017 var meir í samræmi við það sem ég hafði aðhyllst í langan tíma áður, þ.e. „krónuhreinsunarleið“ varðandi slitabúin og að almenn losun hafta á heimili og fyrirtæki kæmi eftir að greiðslujafnaðarvandinn vegna uppgjörs slitabúa og aflandskróna hafði verið leystur eða takmarkaður. Með þessu móti væri líklegast að stöðugleiki yrði varðveittur við losunina og lagalegri áhættu haldið í skefjum. Nákvæm og framkvæmanleg útfærsla á þessu varð hins vegar ekki til fyrr en á árinu 2015 þegar árangursríkt samstarf allra þeirra sem voru hluti af hinu nýja skipulagi skilaði árangri.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, kynntu áætlun um losun hafta á blaðamannafundi sem var haldinn í Hörpu 8. júní árið 2015
Fréttablaðið/GVA


Aðgerðir 2012


Í mars 2012 voru slitabú föllnu bankanna með lögum frá Alþingi sett undir fjármagnshöftin. Seðlabanki Íslands hafði frumkvæði að þeirri lagasetningu. Tillaga bankans byggðist á ítarlegri greiningu sem sýndi að án mótvægisaðgerða fælist í uppgjöri slitabúanna alvarlegur greiðslujafnaðarvandi sem myndi að óbreyttu brjótast út í gengisfalli og efnahagslegum og fjármálalegum óstöðugleika. Ekki er lengur efast um mikilvægi þessa skrefs fyrir jákvæða niðurstöðu málsins og Sigurður Már gerir það heldur ekki í sinni bók. Þessi staðreynd stangast hins vegar illa á við fullyrðingar sem víða koma fram í hans bók að Seðlabankinn hafi ítrekað eftir þetta gert lítið úr þeim greiðslujafnaðarvanda sem fólst í þessu uppgjöri. Þá fullyrðingu í grein Harðar að ekki hafi verið einhugur innan bankans um nauðsyn þessarar lagasetningar hef ég ekki heyrt áður og var þó þekktur fyrir það að leyfa fólki innan bankans að viðra skoðanir sínar við mig.

Það var önnur lagabreyting sem gerð varð í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttir sem hafði töluverð áhrif á vinnulag í framhaldinu. Eftir því sem ég fæ best séð er hvergi minnst á hana í bók Sigurðar Más. Hún fólst í því að undanþágur yfir ákveðinni stærð til búa fallinna banka þyrftu staðfestingu ráðherra. Eftir þetta þurfti formlega séð tvö já til að veita slíkar undanþágur. Ég skrifaði sjálfur töluverðan hluta af texta þessara lagabreytingar. Það var tortryggni í þjóðfélaginu og mér var ljóst að árangursrík losun fjármagnshafta krafðist góðrar samvinnu á milli Seðlabankans og ríkisstjórnar hvers tíma og sem víðtækastar pólitískrar samstöðu.

Þetta sýnir að verkefnið var ekki eins einfalt og sumir vildu vera láta og að stjórnmálaleg staðfesta var ekki það eina sem þurfti.

Í bók Sigurðar Más eru því gerðir skórnir að áform hafi verið um að koma með mótvægisaðgerðir gegn greiðslujafnaðarvanda vegna slitabúa föllnu bankanna eftir áramótin 2012/13. Þá var stutt til alþingiskosninga sem fóru fram 27. apríl 2013. Fram höfðu komið hugmyndir að mögulegri lausn sem unnar voru af Steinari Guðgeirssyni lögmanni og fleirum og kynntar voru í ráðuneyti og Seðlabanka. Þær fólu í sér vissa krónuhreinsun en voru að mörgu öðru leyti töluvert frábrugðnar því sem gert var 2015. Þetta var gagnlegt innlegg til að ræða út frá. Tíminn til útfærslu og framkvæmda fyrir kosningar var hins vegar runninn út og engar líkur á að æskileg pólitísk samstaða myndi nást.

Seðlabankinn setti sjálfur ekki fram formlegar tillögur á þessum tíma um losun hafta á slitabú með mótvægisaðgerðum. Það var ekki tímabært og önnur brýnni mál kröfðust athygli sem tengdust forsendum losunar fjármagnshafta. Gengi krónunnar var undir miklum þrýstingi á árinu 2012, ekki síst vegna þess að gerðar höfðu verið of stífar kröfur um endurgreiðslu á svokölluðu Landsbankabréfi og ekki hafði verið hugað nægilega að gjaldeyrisjafnvægi við skil á milli gamla og nýja Landsbankans. Seðlabankinn var ekki hafður með í ráðum. Þau mistök voru sem betur fer ekki endurtekin þegar kom að losun fjármagnshafta á slita­bú á árinu 2015. Seðlabankinn lagði áherslu á, sem lið í því að leysa greiðslujafnaðarvandann, að lengt yrði í Landsbankabréfinu og það varð síðar að veruleika.


Lausnin 2015


Eftir stjórnarskiptin vorið 2013 og fram að nýju skipulagi í janúar 2015 störfuðu tveir hópar í umboði ríkisstjórnarinnar að tillögum um losun fjármagnshafta. Sex manna ráðgjafahópur var skipaður í lok nóvember 2013. Greinilegt var að ágreiningur var í hópnum og skýrsla hans var aldrei birt. Í byrjun júlí 2014 voru fjórir sérfræðingar ráðnir til að vinna í fullu starfi að tillögum um losun fjármagnshafta með aðstoð tveggja valinkunnra erlendra sérfræðinga. Sá hópur náði meiri árangri en náði ekki að landa tillögum varðandi uppgjör slitabúanna sem líklegar voru til árangurs.

Þetta sýnir að verkefnið var ekki eins einfalt og sumir vildu vera láta og að stjórnmálaleg staðfesta var ekki það eina sem þurfti. Eftir á að hyggja held ég að þessi tími hafi ekki farið allur til spillis. Til að ná þeirri samstöðu sem nauðsynleg var þurfti að setja ýmsar þær hugmyndir sem í gangi voru í áfallapróf sem þær náðu ekki allar.

Aðalatriðið er að eftir strangar æfingar og misheppnaðar tilraunir var það stór blandaður kór sem söng lokalagið en ekki karlakvartett. Hann átti þó mjög mikilvægar línur og söng þær vel

Bakgrunn þeirra vatnaskila sem urðu í upphafi árs 2015 er að hluta til hægt að rekja til ársfundar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í október 2014. Þar gerðist tvennt sem ekki hefur verið áður sagt frá en ég tel nú nauðsynlegt vegna ýmissa rangfærslna sem haldið hefur verið fram. Það fyrra var að fjármálaráðherra og ég áttum fund ásamt fleirum úr sendinefnd ráðuneytisins og bankans þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að endurskipuleggja þetta starf með því að skipa nýjan framkvæmdahóp með beinni aðild fulltrúa Seðlabankans, þéttara samstarfi aðila málsins innan stjórnkerfisins og tíðari fundum stýrinefndar. Það seinna var að við Jón Sigurgeirsson áttum hádegisverðarfund með Anne Krueger og nokkrum dögum síðar með Lee Buchheit í New York þar sem ég útskýrði sýn mína á vandann og hugmyndir um krónuhreinsunarlausn. Seinna átti Lee Buchheit eftir að útskýra með sinni málflutningssnilli á fundi stefnumótunaraðila í Reykjavík þá tvo kosti að afla gjaldeyris til að hleypa út krónunum eða að stroka út krónurnar. Umræðan fór að hneigjast að því seinna og á fór að streyma að ósi.

Már Guðmundsson, sem var seðlabankastjóri á árunum 2009 til 2019, segir að bakgrunn þeirra vatnaskila sem urðu í upphafi árs 2015 sé að hluta til hægt að rekja til ársfundar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í október 2014.

Eitt vantar í bók Sigurðar Más sem er sú mikla vinna sem unnin var í Seðlabankanum á seinni hluta 2015 til að staðfesta að tillögur slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja (sem voru fleiri en stóru búin þrjú) um nauðasamninga væru í samræmi við stöðugleikaskilyrði og afgreiða undanþágur áður en tímafrestur stöðuleikaskattslaga rynni út. Þetta tókst og átti það sinn þátt í því að ferlinu lauk án alvarlegra lagalegra eftirmála. Það kostaði hins vegar að það var stór hópur í bankanum sem tók lítið sumarleyfi það árið. Mitt var 13½ dagur. Í bókinni segir hins vegar: „Lykilmenn í fjármálaráðuneytinu og Seðlabankanum fóru í löng sumarleyfi og sama átti við um framkvæmdahópinn …“ (bls. 274)! Þessa sögu verður að segja betur síðar.


Lokaorð


Ekki verður lengra komist í þessari grein og því ekki rúm til að fjalla um persónur og leikendur sem sumum finnst svo mikilvægt. Aðalatriðið er að eftir strangar æfingar og misheppnaðar tilraunir var það stór blandaður kór sem söng lokalagið en ekki karlakvartett. Hann átti þó mjög mikilvægar línur og söng þær vel. Hér eiga líka við orð Harry S. Truman fyrrverandi forseta Bandaríkjanna: „Það er ótrúlegt hversu miklum árangri þú getur náð ef það skiptir ekki máli hver fær þakkirnar“.

Höfundur er fyrrverandi seðlabankastjóri.