Frá og með þarnæsta mánudegi, 22. febrúar, verður rekstri vínbúðarinnar í Borgartúni hætt og búðinni lokað.

Í tilkynningu frá ÁTVR segir að þau hafi auglýst eftir húsnæði á svæðinu seinni hluta síðasta árs og buðu, meðal annarra, núverandi leigusalar húsnæðið áfram til leigu en ekki náðust samningar þeirra á milli og því hefur verið ákveðið að loka Vínbúðinni.

„ ÁTVR harmar þessa niðurstöðu en því miður eru ekki aðrir valkostir að svo stöddu,“ segir í tilkynningunni.

Þau biðja viðskiptavini afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér. Næstu Vínbúðir eru í Kringlunni, Skeifunni og Skútuvogi.