Veitinga­staðurinn Le Bistro á Lauga­vegi 12 hefur lokað. Alex Da Rocha, einn eig­enda staðarins, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að rekstrar­skil­yrðin vegna heims­far­aldursins hafi reynst eig­endunum of erfið.

Franska veitinga-og vín­húsið opnaði á Lauga­veginum árið 2013 og hefur boðið gestum upp á mat og drykk allar götur síðan. Staðurinn skellti í lás eftir sína síðustu opnun í gær­kvöldi. Alex segir að síðustu mánuðir, allt frá því að stjórn­völd gripu til fyrstu að­gerða sinna vegna CO­VID-19 í vor, hafi verið afar erfiðir.

„Á­hrifanna gætti um leið. Tekju­streymið svo gott sem gufaði upp hjá okkur líkt og hjá þúsundum veitinga­staða um heim allan,“ segir Alex. Sumarið hafi verið gott en þó ekki nærrum því eins gott og í venju­bundnu ár­ferði.

„Það skipti engu máli að við hefðum gert allt okkar til þess að lækka rekstrar­kostnað og fært miklar fórnir. Það var ekki nóg til að bæta tapið upp. Við urðum von­góðir en svo kom seinni bylgjan og var án miskunnar.“

Hann segir að ráð­stafanir stjórn­valda vegna far­aldursins hafi reynst staðnum afar erfiðar. „Það var auð­vitað mikil hræðsla og erfiðar að­stæður í þjónustu­geiranum. Svo hafa margir Ís­lendingar líka á­kveðið að vera heima. Það er ekki við þá að sakast, við þurfum öll að passa upp á öryggi okkar.“

Hann segir ljóst að veitinga­bransinn eins og hann leggur sig eigi nú um sárt að binda vegna að­stæðnanna. „En ég er þess full­viss um að bransinn muni koma til baka hér á Ís­landi.“ Starfs­fólk staðarins ætlar að gera sér glaðan dag og fagna veitinga­húsinu í dag.

„Við ætlum að hittast í há­deginu og snæða há­degis­mat. Svo ætlum við að skála fyrir öllum gömlu góðu tímunum og betri tímum sem fram­undan eru,“ segir Alex brattur.

„Þetta er kannski franskur siður, en það skiptir máli að ljúka hlutunum á réttan hátt. Og starfs­fólkið okkar er staðurinn, við erum fjöl­skylda og ég er heppinn að hafa fengið að eyða hluta af ævinni með þeim.“