Einungis er hægt að panta sæti í 5 flug með WOW air frá Kefla­víkur­flug­velli af 14 slíkum sem eru á á­ætlun á morgun.

Sé farið inn á vef­síðu fé­lagsins í þeim til­gangi að kaupa flug sést að ekki er hægt að kaupa flug til Parísar, Amsterdam, London eða Kaup­manna­hafnar í fyrra­málið. Hins vegar er enn hægt að bóka flug til Las Palmas, Dyflinnar, Berlínar og Frankfurt.

Seinni part morgun­dagsins er síðan fyrir­hugað að fé­lagið fljúgi til Tenerife, Tor­onto, New York, Baltimor­e/Was­hington, Boston og Mon­t­réal. Af þessum stöðum er einungis hægt að panta flug til Tenerife. 

Í ljósi stöðu flug­fé­lagsins og þeirrar ó­vissu sem uppi er um fram­tíð þess verður að teljast ó­lík­legt að upp­selt sé í 9 af þeim 14 brottförum sem fyrir­hugaðar eru á morgun. Blaðið hefur ekki náð tali af forsvarsmönnum flugfélagsins þrátt fyrir tilraunir þess efnis.

Greint var frá því í Markaðnum í síðustu viku að WOW air sé með sam­komu­lag við Isavia um að skilja á­vallt eina þotu eftir á Kefla­víkur­flug­velli sem tryggingu. Er það vegna útistandandi skuldar félagsins gagnvart Isavia.

Þá hefur verið greint frá því að tvær vélar fé­lagsins í 11 véla flota hafi verið kyrr­settar. Af þeim 9 sem eftir eru er ein í við­haldi í Slóveníu og því ljóst að fé­lagið getur ekki flogið til 8 á­fanga­staða sinna í Evrópu á morgun.

Fregnir herma að tap WOW air á síðasta ári hafi numið 22 milljörðum króna. Lausafjárstaða félagsins er þá neikvæð um 11 milljónir dala, jafnvirði 1,4 milljarða króna og eigið fé neikvætt um 111 milljónir dala, jafnvirði ríflega 13 milljarða króna. 

Tilkynnt var um viðræðuslit Ice­landair og WOW á sjötta tímanum í gær. Umræddar viðræður voru stuttar en þær hófust á föstudag eftir að upp úr flosnaði milli WOW og Indigo Partners. Um síðustu helgi viðruðu forsvarsmenn WOW hugmyndir við stjórnvöld um ríkis­ábyrgð á lánalínu til félagsins frá Arion banka.