Matvöruverslunin Kjarval á Kirkjubæjarklaustri verður lokað eftir áramót. Um er að ræða einu matvöruverslunina í bænum en sú næsta er á Vík í Mýrdal. Kjarval er í eigu Festi hf. sem meðal annars á og rekur Krónuna.

Málið var tekið fyrir á sveitastjórnarfundi Skaftárhrepps í dag. Margir bæjarbúar eru ósáttir við að missa einu hverfisverslunina úr bænum.

Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir í samtali við Fréttablaðið að um erfiða ákvörðun sé að ræða en að Krónan ætli að halda áfram að þjónusta íbúa á Klaustri.

„Við viljum skilja vel við og í góðu samkomulagi við íbúa svæðisins. Við erum með kaupendur að verslunarhúsnæðinu, heimamenn sem reka Systrakaffi hér í bænum og hafa mikla reynslu af rekstri. Markmiðið er að tryggja að þarna verði áframhaldandi verslun og stendur nýjum eigendum til boða að fá okkar stuðning í þeim efnum."

Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Ljósmynd/Kristinn Magnússon.

Ásta segir að lokun Kjarvals hafi staðið til um nokkurt skeið. Þegar rekstrarumhverfið er erfitt verður að leita nýrra lausna.

„Tillaga okkar er sú að auk þess sem þarna verður áfram verslun sem nýir eigendur móta, þá erum við líka að bjóða íbúum Klausturs og nærsveita að verða þeir fyrstu á landsbyggðinni að nýta sér Snjallverslun Krónunnar."

Krónan ætlar að veita íbúum á Klaustri tækifæri til að æfa sig á Snjallversluninni í desember og fá vörur sendar til Klausturs á Krónu-verði.

„Það er auðvitað miklu betra verð en hefur verið áður í Kjarvali og miklu meira úrval. Við erum að bjóða þeim sama vöruúrval og þekkist hér í stærstu verslununum á höfuðborgarsvæðinu."

Snjallverslanir eru framtíðin

Ásta segir að snjallverslanir á landsbyggðinni séu framtíðin og bendir þar á nágranna okkar í Noregi sem dæmi.

„Í afskekktum bæjum og fjörðum þar í landi hefur reynst erfitt að halda úti góðum matvöruverslunum og snjallverslanir því farnar að þjónustu þessa staði í auknum mæli. Við viljum með þessu bæta þjónustuna út á landi. Þetta er okkar fyrsta alvöru skref í þá átt. Það á ekki að skipta máli hvort þú búir út á landi eða á stórhöfuðborgarsvæðinu, þú átt að geta fengið sömu kjör og sama úrval og í stærri bæjum."

Krónan vill auka þjónustu við landsbyggðina en íbúar á Kirkjubæjarklaustri verða þeir fyrstu til að geta nýtt sér Snjallverslun Krónunnar á landsbyggðinni.

Íbúar á Kirkjubæjarklaustri verða þjónustaðir í gegnum verslun Krónunnar á Selfossi og viðskiptavinir fá vörurnar sendar til Klausturs. Krónan mun jafnframt bjóða íbúum upp á fría sendingu til Klausturs fyrstu mánuðina ef verslað er fyrir meira en 15 þúsund krónur.

Ásta segist skilja að fólk taki misvel í breytinguna, mörgum þyki erfitt að missa hverfisverslunina. „Snjallverslun er auðvitað nýmæli og það eru margir sem hafa ekki reynslu af henni. Við ætlum að bjóða upp á leiðbeiningu um notkun Snjallverslunarinnar fyrir hádegi í tvær vikur í desember, og gera íbúum kleift að versla í gegnum netið. Okkur langar að sýna fólki út á landi að það eru ákveðin lífsgæði fólgin í því að versla við Snjallverslun okkar á netinu."

Horft fram á veginn

Krónan mun opna verslun á Akureyri árið 2022 og þá stendur til að þjónusta svæði á Norðurlandi með sama hætti.

„Okkur finnst þetta erfið ákvörðun, að loka verslunum í minni bæjum en á sama tíma erum við að reyna að snúa þessi upp í tækifæri. Við ætlum að byrja á Klaustri og fá þau með okkur í lið. Nú er bara að leiða þetta áfram með nýjum eigendum og treysta því að þjónustan skerðist ekki heldur verði enn betri," segir Ásta að lokum.

Aðeins ein verslun Kjarvals verður eftir á Suðurlandi eftir áramót en hún er staðsett á Hellu. Fyrir nokkrum árum voru verslanir Kjarvals fimm, á Kirkjubæjarklaustri, Vík í Mýrdal, Hvolsvelli, Hellu, Þorlákshöfn og í Vestmannaeyjum.