Lög­menn Kaup­þings tróna á toppi launa­hæstu lög­manna, sam­kvæmt á­lagninga­skrá ríkis­skatt­stjóra fyrir síðasta ár.

Þau tíma­mót urðu síðasta haust að Kaup­þingi banka var endan­lega slitið eftir eftir tæp­lega þrettán ára upp­gjörs­tíma. Lög­mennirnir Arnaldur Jón Gunnars­son og Þröstur Ríkarðs­son höfðu góðar tekjur af slitunum í fyrra en Arnaldur hafði sem sam­svarar sex milljónum á mánuði og Þröstur litlu minna með 5,4 milljónir á mánuði.

Fleiri lögmenn gerðu gott mót í fyrra en hlekk á ítarlegan lista má finna neðst í fréttinni.

Óðinn Elías­son, hjá Full­tingi hafði 4,7 milljónir á mánuði að jafnaði og lög­maðurinn Árni Huldar Svein­björns­son hjá KPMG litlu minna.

Launa­hæsta konan í hópi lög­manna var Birna Hlín Kára­dóttir hjá Arion banka, með 3 milljónir á mánuði. Þórunn Helga Þórðar­dóttir hjá Jus var ör­lítið lægri með tæpar 3 milljónir.

Lára V. Júlíusdóttir sérfræðingur í vinnurétti hafði tæpar 2,2 milljónir á mánuði.

Eig­endur og lög­menn Lög­manna Mörkinni áttu fínt ár. Ragnar H. Hall hafði 2, 6 milljónir á mánuði, og Gestur Jóns­son, Hörður Felix Harðar­son og Jón Elvar Guð­munds­son rétt undir tveimur milljónum á mánuði.

Helgi Jóhannes­son fyrr­verandi yfir­lög­fræðingur Lands­virkjunnar hafði rúmar 2,5 milljónir á mánuði í fyrra og Sigurður G. Guð­jóns­son hafði sem sam­svarar 2 milljónum á mánuði.

Ragnar í fullu fjöri

Ragnar Aðal­steins­son á Rétti sem á tæp þrjú ár í ní­rætt hafði í fyrra sem sam­svarar 1,5 milljón í mánaðar­tekjur. Andri Árna­son sem tekist hefur á við Ragnar í Geir­finns­málum undan­farin ár, hafði svipaðar mánaðar­tekjur.

Ragnar Aðalsteinsson hefur varið síðustu árum að mestu í eftirmál endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála. Hann er 87 ára gamall.
Fréttablaðið/ERNIR

Daníel Í­sebarn Ágústs­son hjá Magna sem hefur meðal annars séð um flest mál Ör­yrkja­banda­lagsins hafði einnig tæpa eina og hálfa milljón á mánuði.

Kollegi hans á sömu stofu, Páll Rúnar M. Kristjánsson átti einnig fínt ár og hafði sem samsvarar hátt í 1,7 milljón í mánaðarlaun.

Sveinn Andri Sveins­son sem hefur verið önnum kafinn í stórum þrota­búum undan­farin ár hafði tæpar 1,4 milljón á mánuði og Vil­hjálmur H. Vil­hjálms­son sem enn er að vinna í málum tengdum Lands­réttar­málinu hafði einnig tæpa 1,3 milljón á mánuði.

Nóg var að gera hjá Kristínu Edwald í fyrra, bæði í lögmennskunni og í ýmsum flóknum málum tengdum kosningum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Kristín Edwald á LEX hafði tæpa 1.3 milljón á mánuði í fyrra en auk lögmannsstarfa gegndi hún annasömu starfi formanns Landskjörstjórnar.

Launakjör samkvæmt fréttinni eru reiknuð eftir greiddu útsvari samkvæmt álagningarskrá. Fjármagnstekjur eru ekki taldar með.

Hér má skoða lista yfir launa­kjör lög­manna sem hafa háar tekjur eða hafa verið á­berandi í þjóð­lífinu.