Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður, sem gætt hefur hagsmuna athafnakonunnar Michelle Ballarin og félagsins US Aerospace Associates LLC, hefur sett sig í samband við Odd Eystein Friðriksson, vegna vefsíðu meints flugfélags sem fór í loftið í morgun.

Eins og þekkt er, keypti félag Ballarin vörumerki WOW air úr þrotabúi félagsins í fyrra haust, en merki hins meinta MOM flugfélags svipar mjög til merkis WOW air.

Tilkynning um nýtt flugfélag kom á óvart

Margir blaðamenn ráku upp stóru augu fyrr í dag þegar fréttatilkynning barst um stofnun nýs flugfélags sem átti að bera heitið MOM air.

Í tilkynningunni var flugfélaginu lýst sem ofur-lággjaldaflugfélagi með höfuðstöðvar á Íslandi og að helstu áfangastaðir yrðu í Bandaríkjunum og Evrópu.

Þá var vísað á heimasíðu hins meinta flugfélags þar sem kunnuglegu merki WOW air hefur verið snúið á hvolf og notað áberandi hátt. Greinilegt er að mikil vinna hefur verið lögð í vefsvæðið og má sömuleiðis finna síður MOM air á Facebook og Instagram.

Merki og einkennislitur MOM air minnir um margt á markaðsefni WOW air.
Mynd/Skjáskot

Sterkar vísbendingar eru um að verkefnið sé gjörningur á vegum Odds Eysteins Friðrikssonar, einnig þekktur sem listamaðurinn Odee.

Sjálfur neitaði Oddur því að hafa tengsl við verkefnið í samtali við Fréttablaðið en lénaskráning og aðrar upplýsingar á heimasíðu MOM air benda til þess að síðan tengist honum með beinum hætti.

Þá er ekki um að ræða feminíska endurmörkun (e. rebranding) á hinu fornfræga fjólubláa flugfélagi WOW air en í tilkynningu frá MOM air segir að „mamma [leggji] áherslu á jafnrétti með sérstakri áherslu á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum.“

„Þarna er klárlega óleyfileg notkun á höfundaréttarvörðu vörumerki.“

Ætla ekki að fara fram á lögbann

Páll Ágúst fékk sömu svör og blaðamenn þegar hann setti sig í samband við Odd. Hann segist þrátt fyrir það vera viss í sinni sök.

„Það má alveg hafa gaman af listrænum gjörningum en einhver staðar þurfa mörkin að liggja. Þarna er klárlega óleyfileg notkun á höfundaréttarvörðu vörumerki.“

Hann sagði í samtali við Fréttablaðið að engin áform væru um að fara fram á lögbann á notkun vörumerkisins en sagðist vera nokkuð vongóður um að ábyrgðarmaðurinn myndi taka heimasíðuna niður síðar í dag.

Skömmu eftir að Páll lauk samtali við blaðamann var heimasíða MOM air orðin óaðgengileg en áfram standa eftir síður í nafni félagsins á Facebook og Instagram þegar þetta er skrifað.

Þrátt fyrir allt segir Páll að þarna sé um skemmtilegt verkefni að ræða og aldrei að vita nema að listamanninum verði boðið að spegla merkið til baka og aðstoða við að koma hinu upprunalega fjólublá flugfélagi aftur á koppinn.

„Þarna er greinilega hæfileikaríkur maður með margt til brunns að bera og það er aldrei að vita nema leiðir okkar muni liggja saman.“

Fréttin var uppfærð klukkan 19: Í upprunalegu fréttinni sagði í undirfyrirsögn að vefsíðan hafi verið tekin niður. Hið rétta er að hún var óaðgengileg í nokkurn tíma en hún er nú komin upp aftur.