Loftleiðir Cabo Verde töpuðu 946 milljónum króna á árinu 2019. Tapið má rekja til taps af rekstri ríkisflugfélagsins Cabo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum. Eigið fé eignarhaldsfélagsins var neikvætt um 927 milljónir króna.

Lánveitendur félagsins eru einkum tengdir aðilar. Eignarhaldsfélagið keypti 51 prósents hlut í Cabo Verde Airlines fyrir 1,3 milljónir evra, jafnvirði þá um 176 milljóna króna í lok árs 2018. Íslenska félagið veitti flugfélaginu víkjandi lán upp á 753 milljónir króna. Starfsemin þar liggur nú niðri vegna kórónaveirunnar. Hugmyndin með kaupnum var að tengja saman annars vegar Afríku og Norður-Ameríku og hins vegar Evrópu og Suður-Ameríku.

Loftleiðir Icelandic, dótturfélag Icelandair Group, á 70 prósenta hlut í Loftleiðum Cabo Verde, Kjálkanes á 20 prósenta hlut og Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group, á tíu prósenta hlut. Kjálkanes er systurfélag útgerðarfyrirtækisins Gjögurs.

Tap Cabo Verde Airlines nam liðlega 21 milljón dala, jafnvirði tæplega 2,9 milljarða króna, á síðasta ári.

Erlendur Svavarsson var ráðinn forstjóri flugfélagsins Cabo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum í byrjun þessa árs.