Fasteignasalan Kaupstaður tók í gær, fyrst íslenskra fasteignasala, það skref að bjóða upp á rafræn fasteignaviðskipti. Mikill kostnaður gæti sparast.

Einar G. Harðarson hjá Kaupstað segir að fjöldi manns hafi unnið að breytingunni í heilt ár.

„Við erum að tala um byltingu fyrir neytendur,“ segir Einar. Fólk geti lækkað kostnað vegna fasteignaviðskipta svo nemi milljónum.

Með rafrænum lausnum sparast að sögn Einars mikill tími og kostnaður, til að mynda við gagnaöflun og þinglýsingar. Prósentutengt umsýslugjald falli út. Í nýja kerfinu greiði kúnni grunngjald. Kostnaður við sölu 100 milljóna króna eignar geti legið undir 200.000 krónum í stað jafnvel 2,5 milljóna króna kostnaðar ef allt er talið.

„Það er viðbúið að ég verði litinn hornauga af kollegum mínum en á móti held ég að margir þeirra vildu vera í mínum sporum. Ég er að spara milljarða fyrir fólkið í landinu.“

Guðbjörg Sveinbjörnsdóttir hjá fasteignasölunni Trausta segir um þessa breytingu að vafamál séu uppi varðandi hver sjái um ágreiningsmál ef þau komi upp. Mál séu flóknari en svo að hægt sé að útiloka mikilvægi fasteignasala við húsnæðiskaup.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Fréttablaðið/AntonBrink

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segist fagna aukinni samkeppni, einkum ef hún leiði til betri þjónustu eða lægra verðs.

„Við höfum séð tölvupóstsamskipti sem sýna svart á hvítu að fasteignasalar segjast geta hækkað verð um heila milljón á kostnað kaupanda,“ segir Breki. „Auðvitað eru langflestir fasteignasalar heiðarlegir en þarna eru líka rotin epli innan um.

Neytendasamtökin vilja að tveir fasteignasalar komi að viðskiptum, einn fyrir kaupanda og annar fyrir seljanda. Einnig að ekki megi gera tilboð í íbúð fyrr en í fyrsta lagi sólarhring eftir að hún hefur verið sýnd. Opna verði fyrir öll tilboð í opnu ferli og tryggja aukið gagnsæi. Rafrænt opið umhverfi ætti að hjálpa þar til að sögn Breka.

Þá segir Breki þurfa úrskurðarnefnd vegna fasteignaviðskipta, úrræði áður en mál fari fyrir dóm.