Nonnabiti lokar í miðbænum en eigandinn Jón Guðnason, einnig þekktur sem Nonni, segir erfitt ástand í miðbænum fyrir rekstur veitingastaða. Jón Guðnason á Nonnabita ásamt Björk Þorleifsdóttur en þau opnuðu saman veitingastaðinn árið 1993.

„Ég er orðinn eldri maður og vill hægja aðeins á. Það eru einnig breyttir tímar í miðbænum,“ segir Nonni í samtali við Fréttablaðið.

„Það er erfiðara að halda utan um reksturinn. Það vita það allir sem hafa verið að reka veitingastaði hér í bænum að það er erfitt ástand hjá veitingastöðum almennt,“ segir Nonni.

Fastakúnnar eru miður sín yfir lokuninni en Nonnabiti er einn vinsælasti skyndibitastaður Íslendinga, og geta margir vart hugsað sér að fara í bæinn um helgar án þess að enda kvöldið á Nonnabita

„Fólk er hálf sjokkerað og undrandi að einhverju leyti að heyra af lokuninni,“ segir Nonni. Íslendingar þurfa þó ekki að örvænta því Nonnabiti heldur áfram rekstri í Bæjarlindinni í Kópavogi.

Nonni segir það ljúfsárt að þurfa að loka, hann eigi margar skemmtilegar minningar frá rekstrinum, þó að næturvaktir hafi stundum verið svolítið þreytandi.

„Það er jafn skemmtilegt og þreytandi, maður man eftir þessu skemmtilega og gleymir hinu. Þeir kúnnar sem voru áður unglingar koma til okkar nokkrum árum síðar með börnin sín.“