Lífeyrissjóður verzlunarmanna er með 440 sjóðfélagalán í greiðsluhléi sem eru að umfangi 11 milljarðar króna. Þetta kom fram í máli Guðmundar Þ. Þórhallssonar, framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins, á ársfundi hans á þriðjudaginn.

Lífeyrissjóðir bjóða þeim greiðsluhlé sem eiga í vandræðum með afborganir af sjóðfélagalánum sínum. Greiðsluhlé er sex mánuðir og á meðan það varir leggjast afborganir og vextir ofan á höfuðstól þannig að afborganir hækka þegar greiðsluhléi lýkur. Úrræðið var kynnt í kjölfar efnahagsþrenginga vegna COVID-19.

Í máli Guðmundar kom einnig fram að ekkert fyrirtæki hefði óskað eftir tímabundnum greiðslufresti í tengslum við samkomulag sem náðist milli Samtaka fjármálafyrirtækja og Landssamtaka lífeyrissjóða. Þá hafa sjóðnum borist 370 umsóknir að fjárhæð 330 milljónir króna vegna tímabundinnar heimildar til úttektar á séreignarsparnaði.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna skilaði metafkomu í fyrra. Hrein raunávöxtun var þá 15,6 prósent og eignir jukust um 155 milljarða króna. Þar af voru tekjur af fjárfestingum 136 milljarðar.