Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LIVE), segir að sjóðurinn hafi ekki tapað á fjárfestingunni í Icelandair Group. Þetta skrifar Guðrún á Facebook-síðu sína, en tilefnið eru ummæli Stefáns Sveinbjörnssonar, stjórnarformanns lífeyrissjóðsins, í fréttatíma Ríkisútvarpsins síðasta föstudag. Þar sagði hann að tap sjóðsins á fjárfestingu í Icelandair næmi 1,3 milljörðum króna.

„Þarna er því miður ekki rétt farið með. Hér er kaupverðið tekið og dregið frá virði hlutarins við upphaf útboðsins. Ekki eru nefndar arðgreiðslur til sjóðsins upp á um 1,5 milljarða og þá er einnig eftir að nefna hagnað sjóðsins á fjárfestingu í Icelandair í gegnum Framtakssjóð Íslands,“ sagði Guðrún. Sjóðurinn hefði því ekki tapað á Icelandair.

Framtakssjóður Íslands (FSÍ) hagnaðist um 11,5 milljarða af fjárfestingum sínum í Icelandair. LIVE átti 20 prósenta hlut í framtakssjóðnum og fékk því 2,3 milljarða króna arðgreiðslu á tímabilinu frá nóvember 2011 til febrúar 2014.

Að teknu tilliti til fjárfestingar (FSÍ) hefur LIVE hagnast um 3,1 milljarð króna, sem samsvarar 85 prósenta arðsemi frá því að sjóðurinn kom að endurskipulagningu flugfélagsins árið 2010. Sé horft fram hjá fjárfestingu FSÍ er áætlaður hagnaður jafn markaðsvirði bréfa sjóðsins í Icelandair, eða um 800 milljónir króna. Það samsvarar 27 prósenta arðsemi.

Tillaga um að lífeyrissjóðurinn myndi skrá sig fyrir 2,5 milljarða króna hlut í hlutafjárútboði Icelandair Group féll á jöfnum atkvæðum þar sem fjórir stjórnarmenn greiddu atkvæði með og fjórir greiddu atkvæði gegn.

„Við fórum í gegnum mjög ítarlegt mat á þessum fjárfestingarkosti og komumst að því að áhættan var töluverð og mögulegir ávöxtunarmöguleikar voru ekki nógu miklir til að vega upp þá áhættu sem var í þessu fjárfestingatækifæri,“ sagði Stefán Sveinbjörnsson í samtali við Fréttablaðið eftir útboðið.