Liv Bergþórsdóttir, sem sat í stjórn flugfélagsins WOW air og er fyrrverandi forstjóri NOVA, er nýr stjórnarformaður Keahótela. Tekur hún við stjórnarformennskunni af Jonathan Rubini en félag í hans eigu, JL Properties, keypti, ásamt bandaríska fjárfestingafélaginu Pt Capital, 75 prósenta hlut í hótelkeðjunni árið 2017.

Þetta kemur fram í tilkynningu en þar segir að Liv muni vinna með eigendum og stjórnendum félagsins, sem rekur ellefu hótel í Reykjavík og á landsbyggðinni, að frekari uppbyggingu og þróun þess. Þá mun Liv, sem var meðal annars kjörin í stjórn Bláa lónsins í sumar, jafnframt halda utan um aðrar fjárfestingar Rubinis hér á landi.

Í tilkynningu er haft eftir Rubini: „Við sem fjárfestar höfum mikinn áhuga á Íslandi og sjálfur hef ég bjargfasta trú á að Ísland verði vinsæll ferðamannastaður til framtíðar. Við kynntumst Liv í gegnum fjárfestingu okkar í Nova og hlökkum til að vinna með henni að nýjum verkefnum.”

Liv segist hlakka til að kynnast hótelgeiranum betur. „Þetta er krefjandi og spennandi samkeppnismarkaður. Það verður skemmtileg áskorun að vinna með stjórnendum Keahótela að því að þróa félagið áfram og auka enn frekar ánægju gesta.”

Hótelkeðjan hagnaðist um rúmar 484 milljónir króna í fyrra og dróst hagnaðurinn saman um 55 milljónir króna á milli ára. Rekstrartekjur keðjunnar námu liðlega 4,0 milljörðum króna borið saman við 3,1 milljarð króna árið 2017.

EBITDA Keahótela – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – var jákvæð um 574 milljónir króna í fyrra en til samanburðar var hún jákvæð um 587 milljónir króna árið áður.

Hótelkeðjan er í eigu eignarhaldsfélagsins K Acquisitions en að baki því standa bandaríska fasteignafélagið JL Properties með 25 prósenta hlut, bandaríska eignastýringarfélagið Pt Capital Advisors með 50 prósenta hlut og fjárfestingafélagið Tröllahvönn, sem er í eigu Andra Gunnarssonar, Kristjáns M. Grétarssonar, Fannars Ólafssonar og Þórðar Hermanns Kolbeinssonar, með 25 prósenta hlut.