Liv Bergþórsdóttir, verðandi forstjóri ORF Líftækni, var kjörin stjórnarformaður Iceland Seafood International á fyrsta fundi nýrrar stjórnar sjávarútvegsfélagsins í gær. Fyrrverandi stjórnarformaður félagsins, Magnús Bjarnason, gekk úr stjórninni á aðalfundi í síðustu viku.

Auk Livar sitja þau Bergþór Baldvinsson, framkvæmdastjóri Nesfisks, Gunnlaugur Karl Hreinsson, framkvæmdastjóri GPG Seafood, Halldór Leifsson, markaðs- og sölustjóri FISK Seafood, Ingunn Agnes Kro, fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifstofu- og samskiptasviðs Skeljungs, og Jakob Valgeir Flosason útgerðarmaður í stjórn Iceland Seafood International.

Greint var frá því í byrjun vikunnar að Liv, sem leiddi uppbyggingu fjarskiptafélagsins Nova frá stofnun árið 2006 til ársins 2018, hefði verið ráðin forstjóri ORF Líftækni. Tekur hún við starfinu um næstu mánaðamót. Liv er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið AMP námi við IESE Barcelona Business School.