Eftir að hafa náð 15 ára lágmarki á fyrsta fjórðungi ársins hefur verð á eldislaxi hækkað skarpt frá apríllokum, að sögn Kjartans Ólafssonar, stjórnarformanns Arnarlax. „Verðin í gegnum faraldurinn hafa verið í kringum 40 norskar krónur á kílóið, sem er nálægt 15 ára lágmarki. Frá lokum apríl hafa þau hins vegar hækkað skarpt og standa nú á bilinu 60 til 70 norskar krónur fyrir kílóið,“ segir Kjartan.

Tekjur Arnarlax á fyrsta fjórðungi ársins drógust saman um ríflega þriðjung milli ára og námu 178 milljónum norskra króna. Lægri tekjur má að öllu leyti rekja til verðlækkana á mörkuðum, en framleiðsla fyrirtækisins hélst í horfinu milli ára.

Jákvæð teikn eru á lofti fyrir laxaframleiðendur það sem eftir lifir árs að sögn Kjartans: „Á fyrsta ársfjórðungi áætluðu þeir sem greina þennan markað að framboð á eldislaxi hefði aukist um á bilinu 10 til 12 prósent. Áætlanir sömu greinenda næstu þrjá ársfjórðunga gera ráð fyrir að nettó framboðsaukning út árið verði í kringum núllið, svo að það ætti að styðja við verðið. Sérstaklega í ljósi þess að eftirspurnaraukning á eldislaxi til lengri tíma er áætluð á bilinu sex til átta prósent á ári hverju,“ segir hann.

Arnarlax er skráður í kauphöllina í Osló, en markaðsvirði fyrirtækisins er nú ríflega 52 milljarðar íslenskra króna. Sé það borið saman við félög í íslensku kauphöllinni má sjá að Arnarlax er meðal miðlungsstórra félaga hér á landi. Markaðsvirði Icelandair liggur í kringum 46 milljarða sem stendur og tryggingafélagsins Sjóvár um 44 milljarða.

„Ég hygg að framleiðslugeta Arnarlax, möguleikar til aukningar framleiðslu og horfur á hækkandi verði á laxi búi til þennan verðmiða á fyrirtækinu. Norskir bankar sem greina þennan markað áætla langtímaverð á eldislaxi á bilinu 55 til 65 norskar krónur á kílóið. Okkar langtímaáætlanir um kostnað eru um 40 norskar á kílóið. Það er því mikil framlegð í þessum rekstri ef vel er haldið á spöðunum og dæmin frá Noregi hafa sýnt það í gegnum tíðina,“ segir Kjartan.

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Sem áður sagði er Arnarlax skráður í norsku kauphöllina í gegnum norskt móðurfélag sitt, Icelandic Salmon S/A. Komið hefur til umræðu að skrá félagið samhliða á íslenska hlutabréfamarkaðinn, en Kjartan segir þó engar ákvarðanir hafa verið teknar um það sem stendur. „Mér finnst hins vegar mikilvægt að tryggja gagnsæi og að Íslendingar hafi góðan aðgang að félaginu svo að breiðari sátt náist um greinina. Einn af okkar stærstu hluthöfum er Gildi lífeyrissjóður og Stefnir heldur líka á stórum hlut. Ég vona að Íslendingar komi í auknum mæli inn í þessa grein sem fjárfestar,“ segir hann