Dómstólum hefur einungis borist 21 beiðni um greiðsluskjól frá því að úrræðið var lögfest í byrjun sumars. Runólfur Þór Sanders, sérfræðingur í endurskipulagningu fyrirtækja hjá Deloitte, segir að framlenging á greiðslufrestum hjá fjármálafyrirtækjum hafi dregið úr ásókn fyrirtækja í greiðsluskjól.

„Mörg fyrirtæki hafa náð samkomulagi eða eru í viðræðum við sína banka, sem oft eru stærstu kröfuhafarnir, um lengri greiðslufresti, jafnvel fram á mitt næsta ár. Auk þess hafa stjórnvöld verið að kynna nýja styrki til sögunnar fyrir minni fyrirtæki og má því ætla að sumir vilji bíða og sjá áður en ákvörðun um greiðsluskjól er tekin,“ segir Runólfur Þór í samtali við Markaðinn.

Fyrirtæki hafa frest fram að áramótum til að sækja um greiðsluskjól, það er tímabundna heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Lög þess efnis voru samþykkt í júní sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 faraldursins. Samkvæmt svari Dómstólasýslunnar við fyrirspurn Markaðarins hefur héraðsdómstólunum samtals borist 21 beiðni um tímabundna heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar.

125876399_1283411661991813_8028195511634453438_n.jpg

Runólfur Þór segir að atvinnurekendur þurfi að leggja mat á hvort greiðslufrestir hjá fjármálastofnunum fram á mitt næsta sumar dugi til.

„Ein ástæða fyrir því að fyrirtæki eru að skoða þetta úrræði er sú að það er lögvarið ferli sem styrkir samningsstöðu gagnvart bankanum. Án sérstaks greiðsluskjóls er óvíst hver staða fyrirtækja verður þegar síðustu greiðslufrestirnir renna út,“ segir Runólfur og bendir á að samkvæmt lögum geti greiðsluskjól varað í allt að 12 mánuði.

Fjármálastofnanir gerðu í vor með sér samkomulag um tímabundinn greiðslufrest á lánum til fyrirtækja. Fyrirtæki gátu þá sótt um að fresta greiðslum í allt að sex mánuði en þó ekki lengur en út árið 2020. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði í viðtali við Markaðinn í byrjun mánaðarins að tuttugu prósent af lánasafni Íslandsbanka hefðu verið sett í frystingu.

„Okkar mat er að á fyrirtækjahliðinni geti helmingur fyrirtækja hafið greiðsluferli á ný,“ sagði Birna. Bankinn telur því að minnst 10 prósent af lánasafninu verði í frystingu fram á sumar.