Ofseta í stjórnum (e. over-board­ing) virðist ekki vera vandamál í íslensku viðskiptalífi, segir í samantekt Creditinfo um samsetningu stjórna í stærstu fyrirtækjum landsins. „Fátítt er að fólk eigi sæti í fleiri en tveimur stjórnum og nánast enginn í fleiri en fimm,“ segir Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður greiningar og ráðgjafar Creditinfo.

Á erlendri grundu hefur ofseta fengið síaukið vægi hjá þeim sem beita sér fyrir góðum stjórnarháttum. Hætta er á því að fólk sem situr í mörgum stjórnum – ofseta er jafnan miðuð við setu í stjórnum fjögurra eða fleiri stórfyrirtækja – hafi of mikið á sinni könnu til að geta sinnt stjórnarstörfunum með fullnægjandi hætti.

Skoðuð voru 300 tekjuhæstu fyrirtæki landsins miðað við ársreikninga fyrir reikningsárið 2019 og varamenn voru undanskildir. Það eru samtals 1.050 stjórnarsæti sem um 800 mismunandi einstaklingar sitja í.

Samantekt Creditinfo leiðir í ljós að mikill meirihluti stjórnarfólks, um 80 prósent, situr einungis í stjórn eins fyrirtækis. Fjórtán prósenta sitja í stjórnum tveggja fyrirtækja og aðeins eitt prósent situr í stjórnum fimm eða sex fyrirtækja.

Taflan.jpg

„Mér sýnist tölurnar ekki benda til þess að þetta sé útbreitt vandamál og oft eru þessir einstaklingar, sem sitja í þremur eða fleiri stjórnum, ekki í neinu öðru, þannig að þau ættu að hafa tíma til að einbeita sér að þessum fyrirtækjum,“ segir Andrés Jónsson, eigandi Góðra samskipta, sem veitir alhliða ráðgjöf á sviði stefnu, ráðninga og almannatengsla auk stjórnendaþjálfunar.

Andrés segir að ofseta í íslensku viðskiptalífi felist frekar í því að fólk sem er í krefjandi stjórnunarstöðu sem framkvæmdastjóri eða forstjóri sitji einnig í einum eða tveimur stjórnum, jafnvel í skráðum fyrirtækjum. „Ef það er í krefjandi verkefnum á öllum þessum vígstöðvum þá velta hluthafar fyrir sér hvort viðkomandi sé nægilega fókuseraður á þeirra fyrirtæki, fyrst hann eða hún hefur svigrúm fyrir mörg fleiri stór verkefni.“

Andrés Jónsson, eigandi Góðra samskipta.

Frekari sundurliðun á tölunum sýnir að um 65 prósent stjórnarfólks hjá 300 tekjuhæstu fyrirtækjunum eru karlar en 35 prósent eru konur.

Nokkur munur er á aldursdreifingu kynjanna. Meðalaldur karla í stjórnum 300 tekjuhæstu fyrirtækjanna er 55 ár en meðalaldur kvenna er 52 ár. Hlutfallslega eru fleiri stjórnarmenn á aldrinum 30 til 59 ára konur en hlutfallslega fleiri karlar eru 60 ára og eldri.

aldur.png

Ungir sækja í fjölbreytni

Gunnar segir fátt mæla á móti setu í fleiri en einni stjórn og nýtast þá starfskraftar og reynsla viðkomandi víðar. „Helstu skorður snúa að því að fólk sitji í stjórnum fyrirtækja sem keppa á sama markaði og líklegt að þær skorður ráði einhverju í þeim litla hópi hér á landi sem situr í stjórnum margra fyrirtækja.“

Andrés segist hafa tekið eftir því að stjórnendur, sérstaklega ungir stjórnendur, sækist eftir meiri fjölbreytni í starfi. Stjórnarseta eða ráðgjafarstörf til hliðar við stjórnunarstöður gefi fólki tilbreytingu og tækifæri til að beita þekkingu sinni á nýjan hátt. „Þannig að þetta getur líka verið leið fyrir fyrirtæki að þroska og þróa sitt fólk. Að gefa því svigrúm til að sitja í stjórnum.“

„Sú skoðun er að minnsta kosti nokkuð útbreidd meðal fjárfesta hér á landi að það sé of hátt hlutfall af „snittu-stjórnarfólki“ í íslenskum stjórnum.“

Þá segir hann að samsetning stjórna á Íslandi endurspegli að vissu leyti ýmis önnur þekkt vandamál í íslensku viðskiptalífi, svo sem skort á fagfjárfestum á ákveðnum tímabilum í æviskeiði fyrirtækja, umboðs- og freistnivanda, of litla veltu á hlutabréfamarkaði, áhættufælni vegna orðsporsáhættu og almennrar einsleitni.

„Sú skoðun er að minnsta kosti nokkuð útbreidd meðal fjárfesta hér á landi að það sé of hátt hlutfall af „snittu-stjórnarfólki“ í íslenskum stjórnum. Það er að segja fólki sem leggur lítið af mörkum á stjórnarfundum annað en að gera veitingunum skil,“ segir Andrés. Umræða um samsetningu og hlutverk stjórna, sem birtist nú oftar á opinberum vettvangi en áður, sé heilbrigðismerki.

Uppfæra hluthafastefnur til að sporna við ofsetu

Vísitölufyrirtækið MSCI gaf árið 2019 út skýrslu um samsetningu stjórna í vísitölunni MSCI ACWI global equity index, sem nær yfir þrjú þúsund skráð hlutafélög í 50 löndum. Í skýrslunni kom fram að fyrirtæki sem reyna að fjölga konum í stjórn sækja oft í sama brunn. Þannig sátu 22 prósent kvenkyns stjórnarmanna í þremur eða fleiri stjórnum samanborið við 12 prósent karla.

„Þessar niðurstöður gefa til kynna að þrátt fyrir víðtækt framboð af menntuðum og reynslumiklum konum í atvinnulífinu hafa sum fyrirtæki reitt sig á takmarkaðan hóp frambjóðenda,“ sagði í skýrslunni.

Stærstu sjóðastýringarfyrirtæki heims, þar á meðal Blackrock og Vanguard, hafa á síðustu árum uppfært hluthafastefnu sína til þess að sporna við ofsetu í stjórnum fyrirtækja sem þau fjárfesta í.

Blackrock gerir til að mynda kröfu um nánari útskýringar frá fyrirtækjum þar sem stjórnarmaður situr í fleiri en þremur öðrum stjórnum, og þegar stjórnarformenn sitja í tveimur eða fleiri öðrum stjórnum.