Verð á málminum liþíum hefur hækkað um 93 prósent það sem af er ári og leiðir mikla hækkun á nánast öllum hrávörum sem nýttar eru til orkuframleiðslu og -geymslu. Hröð aukning í framleiðslu rafmagnsbíla hefur stóraukið eftirspurn eftir málminum, en liþíum er notað í rafhlöður slíkra bíla.

Stór liþíumframleiðandi í Chile segir að meiriháttar skortur sé á málminum sé líklegur, en Chile er næststærsti liþíumframleiðandi heims, að því er kemur fram í umfjöllun OilPrice.com sem tók saman þær orkuhrávörur sem hækkað hafa mest á árinu.

Þrátt fyrir að orkuskipti heimsins séu nú í fullum gangi, hefur kolaverð hækkað mikið á árinu, eða um ríflega 63 prósent. Kol eru ennþá mikilvægur orkugjafi við rafmagnsframleiðslu, einkum í Kína og Evrópu. Stóraukin eftirspurn raforku í Kína hefur einnig orsakað að landið er nú nettó innflytjandi á kolum í fyrsta sinn í sögunni.

Hráolía hefur einnig hækkað mikið, eða um 44 til 47 prósent. OPEC hefur dregið úr framleiðslu að undanförnu til að sporna gegn verðlækkunum. Í fjórða sætinu er svo jarðgas, bæði vegna raforkueftirspurnar en einnig mikillar ásóknar frá framleiðendum fljótandi jarðgass (LNG).

Í fimmta sætinu er kopar, en verð á þeim málmi hefur hækkað um tæp 19 próesnt á árinu. Þar að baki eru sömu ástæður og hafa ýtt upp liþíumverði, en kopar er einnig mikilvægt hráefni við framleiðslu rafbíla.