Forráðamenn Lindex á Íslandi hafa ákveðið að opna nýja verslun í miðbæ Egilsstaða í haust. Samningur þess efnis hefur verið undirritaður af hálfu Reita og forráðamanna Lindex.

Verslunin verður staðsett við hlið Bónuss í Miðvangi, aðalverslunarkjarna miðbæ Egilsstaða og mun bjóða upp á allar þrjár meginvörulínur Lindex auk þess sem boðið verður upp á nýjustu tækni við verslunina eins og 70 tommu snertiskjái við mátunarklefa. Framkvæmdir eru þegar hafnar við nýju verslunina og er opnun áætluð á næstu misserum, í síðasta lagi í september segir í fréttatilkynningu.

Miðvangur er verslunarkjarni í miðbæ Egilsstaða sem byggður var árið 2005 og telur um 1.800 fermetrar og er þar m.a. Bónus, A4 og Subway en nú bætist Lindex við flóruna.

Fundu fyrir miklum áhuga á Austurlandi

Lindex rekur nú 6 verslanir á Íslandi, í Smáralind, Kringlunni, á Glerártorgi á Akureyri, miðbæ Akraness og í Krossmóum í Reykjanesbæ.

Fatakeðjan kemur frá Svíþjóð en Lindex tilheyrir Stockmann Group sem er aðili að finnsku kauphöllinni. Fyrsta verslunin opnaði hér á landi í Smáralind árið 2011.

Hjá fyrirtækinu starfa um 100 manns á Íslandi ásamt 10 manns í Danmörku

Lindex er ein stærsta tískufatakeðja Norður Evrópu með um 500 verslanir í 18 löndum. Lindex býður upp á tískufatnað fyrir konur, undirföt, snyrtivörur og fylgihluti sem og fatnað á börn og unglinga.

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga á Lindex sem hefur hvatt okkur áfram í að finna stað fyrir verslun okkar hér. Við teljum því einstakt að koma og festa rætur hér á Austurlandi með verslun sem Austlendingar geta kallað sína eigin. Við erum því full tilhlökkunar að koma austur og fagna opnuninni.“ segir Lóa D. Kristjánsdóttir, umboðsaðili Lindex á Íslandi.