Í næstu viku verður málflutningur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Frigusar II gegn íslenska ríkinu og Lindarhvoli ehf. vegna meints tjóns sem Frigus II varð fyrir þegar Lindarhvoll, fyrir hönd íslenska ríkisins, gerði kaupsamning 1. nóvember 2016, við BLM fjárfestingar ehf. um kaup þess á skuldakröfum og eignarhlutum ríkisins í Klakka ehf. að undangengnu útboði.

Frigus II heldur því fram að Lindarhvoll hafi brotið með margvíslegum hætti gegn reglum sem gilt hafi um félagið og reglum útboðs- og stjórnsýsluréttar um gagnsæi og jafnræði bjóðenda.

Athygli hefur vakið að Steinar Þór Guðgeirsson lögmaður skuli hafa verið valinn til að gæta hagsmuna íslenska ríkisins í málinu, en Steinar Þór var umsjónaraðili Lindarhvols, samkvæmt samningi við fjármálaráðuneytið og ágreiningsefni snýst að verulegum hluta um gjörðir hans og ákvarðanir í því hlutverki.

Steinar Þór þarf að gefa vitnaskýrslu fyrir dómi í málinu og dómari úrskurðaði að þá skýrslu verði að gefa áður en annar málflutningur hefst vegna þess að vitni má ekki fylgjast með því sem fram kemur í málflutningi áður en það gefur skýrslu og lögmaður aðila verður að geta fylgst með öllum málflutningi málsins. Steinar Þór barðist gegn því að þurfa að gefa vitnaskýrslu áður en annar málflutningur hæfist en dómari féllst ekki á hans rök. Steinar Þór barðist einnig gegn því að Frigus II fengi að leiða fyrir dóm vitnin Þór Hauksson, Valtý Sigurðsson og Sigurð Þórðarson, fyrrverandi settan ríkisendurskoðanda til að endurskoða ársreikning Lindarhvols og annast eftirlit með framkvæmd samningsins milli fjármálaráðuneytisins og Lindarhvols.

Héraðsdómur heimilaði að Þór og Valtýr yrðu kallaðir sem vitni en ekki að Sigurður Þórðarson fengi að bera vitni. Rétt fyrir jól úrskurðaði Landsréttur hins vegar að Sigurður fengi að bera vitni í málinu.

Í svari við fyrirspurn frá Fréttablaðinu segir Fanney Rós Þorsteinsdóttir ríkislögmaður að fyrir komi að embættið leiti til sjálfstætt starfandi lögmanna til að „annast hagsmuni íslenska ríkisins fyrir dómi og þá jafnan að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti“. Að sögn Fanneyjar Rósar taldi fjármála- og efnahagsráðuneytið að hagsmunir Lindarhvols og ríkissjóðs færu saman í málinu og því hefði Steinari verið falið að fara jafnframt með málið fyrir hönd ríkisins.

Í framhaldi af þessu svari beindi Fréttablaðið þeirri spurningu til ríkislögmanns í síðustu viku hvort henni væri kunnug einhver dæmi þess að lögmaður sem tekið hefði að sér störf ríkislögmanns í dómsmáli hafi verið kvaddur sem vitni í því sama máli. Engin svör hafa borist.

Þegar Sigurður Þórðarson lét af störfum sem settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols skilaði hann skýrslu til forsætisnefndar Alþingis með harðorðri gagnrýni um ótal mörg atriði í starfsemi félagsins og beindist gagnrýni hans meðal annars að eftirliti með störfum Steinars Þórs Guðgeirssonar.

Forsætisnefnd Alþingis samþykkti í apríl í fyrra að gera skýrslu Sigurðar opinbera en Birgir Ármannsson hefur upp á sitt einsdæmi setið á henni og neitað að gera hana opinbera, vegna andstöðu fjármálaráðuneytisins. Nú liggur hins vegar fyrir að Sigurður gefur Héraðsdómi Reykjavíkur skýrslu um málið í næstu viku og mögulega verða þá opinberar þær upplýsingar sem Birgir Ármannsson og fjármálaráðuneytið virðast fyrir alla muni vilja halda leyndum.

Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður og fyrrverandi umsjónaraðili Lindarhvols
Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi um málefni Lindarhvols