Linda Dröfn Gunnars­dóttir hefur verið ráðin til að gegna starfi fram­kvæmda­stýru Sam­taka um kvenna­at­hvarf. Hún tekur við starfinu af Sig­þrúði Guð­munds­dóttur, sem stýrt hefur at­hvarfinu síðast­liðinn 16 ár.

Linda Dröfn er meistara­gráðu í Evrópu­fræðum frá Á­rósar­há­skóla og B.A. í spænsku frá Há­skóla Ís­lands. Auk þess er Linda með kennslu­réttindi og hefur einnig lokið rekstrar- og fjár­mála­námi frá Opna Há­skólanum í Há­skólanum í Reykja­vík.

Linda hefur um­fangs­mikla reynslu af starfi í fjöl­menningar­sam­fé­lagi og með fólki með fjöl­breyttan bak­grunn. Hún hefur starfað lengi í al­þjóða­málum og mál­efnum flótta­manna en hún gegndi stöðu verk­efna­stjóra vegna komu flótta­fólks hjá Ísa­fjarðar­bæ og starfar í dag sem verk­efnis­stjóri þróunar­verk­efna og stað­gengill for­stöðu­manns hjá Fjöl­menningar­setri.

Hún er með sterkan stjórnunar­legan bak­grunn og sinnti meðal annars tíma­bundið starfi fram­kvæmda­stjóra Eflingar nú ný­verið.

„Þetta eru mjög spennandi tíma­mót fyrir nýja fram­kvæmda­stýru að koma inn í Kvenna­at­hvarfið. Það hafa orðið gríðar­lega miklar breytingar á rekstri at­hvarfsins á síðustu árum, bygging og rekstur á­fanga­heimilis fyrir 18 konur og at­hvarf á Akur­eyri hafa ný­lega bæst við. Auk þess er undir­búningur fyrir byggingu nýs at­hvarfs í fullum gangi. Þessi nýju verk­efni til við­bótar við rekstur neyðar­at­hvarfsins í Reykja­vík eru tals­vert mikil á­skorun. Það er því mikil­vægt að fá inn hæfan stjórnanda sem býr yfir þeim per­sónu­leika og reynslu sem Linda Dröfn hefur og við hlökkum til að fá hana til liðs við Kvenna­at­hvarfið." segir Hulda Ragn­heiður Árna­dóttir, stjórnar­for­maður Kvenna­at­hvarfsins.