Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi deilt áhyggjum hennar af fyrirkomulagi Íslandsbankaútboðsins.
Þetta kom fram í svari Lilju við fyrirspurn Halldóru Mogensen, þingflokksformanni Pírata, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun.
Halldóra rifjaði upp viðtal sem birtist við Lilju í Morgunblaðinu fyrr í mánuðinum þar sem hún kvaðst hafa verið óhlynnt þeirri ákvörðun að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka til valins hóps fjárfesta. Kvaðst hún frekar hafa viljað einblína á gæði framtíðareigenda heldur en verð.
Halldóra spurði Lilju loks hvernig forsætisráðherra og fjármálaráðherra brugðust við gagnrýnum sjónarmiðum hennar og hvers vegna var ekki tekið mark á áhyggjum hennar af fyrirkomulaginu.
„Ég get upplýst þingið um það að þau höfðu líka þessar áhyggjur. Og það var auðvitað þannig að það kemur tillaga frá Bankasýslu ríkisins um að þessi aðferð sé til þess fallin að hámarka verð á þessari eign og þessi aðferð sé sú sem sé alls staðar beitt um allan heim,“ sagði Lilja og bætti við:
„Ég verð bara að viðurkenna það að ég hafði ákveðnar efasemdir um þetta, sérstaklega í ljósi þess að hér varð risastórt fjármálahrun og traustið í íslensku samfélagi fór. Það er gríðarlega alvarlegt og það voru þúsundir fjölskyldna sem misstu heimili sín og áttu um mjög sárt að binda. Þess vegna var afskaplega mikilvægt að við myndum vanda okkur og huga að mikilvægi traustsins.“