Lilja Katrín Gunnars­dóttir hefur verið ráðin rit­stjóri Frjálsrar fjöl­miðlunar ehf., sem á og rekur DV og dv.is. Lilja er annar tveggja rit­stjóra sem ráðnir verða til fé­lagsins.

Lilja Katrín hefur starfað í fjöl­miðlum síðustu fimm­tán árin. Hún hóf ferilinn á Frétta­blaðinu og hefur meðal annars verið rit­stjóri Séð og Heyrt, um­sjónar­maður inn­blaðs Frétta­blaðsins og Lífsins á Vísi og vef­stjóri Mann­lífs.

Þá hefur hún einnig unnið sem dag­skrár­gerðar­kona í Ís­landi í dag og starfað sem kynningar­stjóri fram­leiðslu­fyrir­tækisins Sagafilm. Hún er með BA gráðu í leik­list fyrir sjón­varp og kvik­myndir og hefur leikið í sjón­varpi, tal­sett aug­lýsingar, skrifað hand­rit að gaman­þáttum og samið ein­leik.

Lilja mun vinna náið með Guð­mundi Ragnari Einars­syni, markaðs- og þróunar­stjóra DV, að þróun DV og undir­miðla.

Einar Þór Sigurðs­son verður á­fram að­stoðar­rit­stjóri Frjálsrar fjöl­miðlunar ehf.
„Það er mikill fengur fyrir fé­lagið að fá Lilju Katrínu í rit­stjóra­stólinn,“ að sögn Karls Garðars­sonar fram­kvæmda­stjóra Frjálsrar fjöl­miðlunar. Bæði sé hún reynslu­mikil í fjöl­miðlum og hafi skýra sýn á hvert skuli stefna með miðla fé­lagsins. „Við bjóðum hana vel­komna til starfa, en fram­undan eru spennandi tímar hjá fé­laginu,“ segir Karl.

Kristjón Kormákur Guðjónsson lét nýverið af störfum sem ritstjóri DV. Hann er í dag ritstjóri fréttamiðilsins Hringbrautar.