Ríkisstjórnin verður að ráðast í frekari fjárfestingar og flýta framkvæmdum til þess að sporna við niðursveiflu í hagkerfinu. Einnig verður að lækka tryggingagjald og sveitarfélög þurfa að leggja sitt af mörkum með því að leggja fasteignagjöld.

Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra í viðtali í Viðskiptapúlsinum, hlaðvarpi ViðskiptaMoggans.

„Við erum í dauðafæri til þess að veita hressilega viðspyrnu vegna þess að við erum búin að undirbúa okkur vel fyrir þetta,“ segir Lilja og vísar til hreinnar erlendrar stöðu þjóðarbúsins sem hefur aldrei verið betri.

„Við erum búin að vera að safna gjaldeyri í landinu og þess vegna þurfum við núna að veita hagkerfinu okkar og efnahagslífi það súrefni sem það þarf til þess að atvinnuleysi aukist ekki enn frekar.“

Umfang aðgerðanna þarf að nema að minnsta kosti 2 prósentum af landsframleiðslu, um 50 milljörðum króna, að mati Lilju. Hún segir mörg verkefni í pípunum sem hægt er að koma á framkvæmdastig á skömmum tíma.

„Við erum rétt yfir langtímameðaltalinu varðandi opinberar fjárfestingar ríkissjóðs og ég vil sjá meiri aukningu þar,“ segir Lilja sem telur rétt að ríkissjóður verði rekinn með halla til þess að tryggja innspýtinguna. Þá býst hún við að breið samstaða náist um aðgerðir af þessu tagi þar sem margir deili sömu skoðun.