Ávöxtunarkrafa lengri ríkisskuldabréfa hefur hækkað um hátt í eina prósentu á þremur mánuðum og á sama tíma hafa fjármögnunarkjör bankanna á markaði, það er kjör sértryggðra bréfa, versnað. „Það eru allar líkur á að fastir vextir á íbúðalánum bankanna muni að óbreyttu hækka nokkuð á næstunni vegna þessarar þróunar,“ segir Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri skuldabréfa hjá Kviku eignastýringu.

Bankar fjármagna útlán til íbúðakaupa með því að gefa út svokölluð sértryggð skuldabréf, en verðlagning þeirra miðast við ákveðið álag ofan á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa. Þegar ávöxtunarkrafa ríkisbréfanna hækkar, þá hækkar sömuleiðis ávöxtunarkrafa sértryggðu bréfanna og þar með fjármögnunarkostnaður bankanna og vextir á íbúðalánum.

Á síðustu þremur mánuðum hefur ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa og sértryggðra ríkisskuldabréfa hækkað töluvert. Hækkun ríkisbréfanna er á bilinu 0,56 til 0,97 prósentustig eftir lengd bréfanna og hækkun sértryggðra bréfa er á svipuðu bili.

Ávöxtunarkrafan.PNG

„Niðurstaðan er sú að langtímavextir eru nú hærri en í febrúar síðastliðnum og því eru stýrivaxtalækkanir að skila sér að mjög takmörkuðu leyti yfir í fjármögnunarkjör til lengri tíma,“ segir Birgir Haraldsson, sjóðsstjóri hjá AKTA sjóðum. „Vaxtagrunnurinn sem ríkisskuldabréf mynda hefur hækkað skarpt undanfarnar vikur og fjármögnunarkjör bankanna versnað að sama skapi.“

Íslandsbanki hækkaði vexti á húsnæðislánum í lok október en hækkunin var rökstudd með vísan til hækkandi ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði.

Seðlabankinn sér á báti

„Það er vissulega áhyggjuefni ef lækkun stýrivaxta er ekki að skila sér nægilega vel í skuldabréfamarkaði sem myndar grunn að verðlagningu húsnæðislána. Þetta verður að fylgjast að,“ sagði Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, í viðtali við Markaðinn í síðustu viku. Vaxtahækkun Íslandsbanka nam allt að 0,35 prósentustigum og náði til nýrra lána.

„Ég veit ekki til þess að seðlabanki í þróuðu ríki hafi hvorki hafið magnbundna íhlutun að ráði né gefið leiðsögn um vaxtaþróun frá því að heimsfaraldurinn hófst.“

Birgir segir að vextir á húsnæðislánum geti hækkað meira á næstu misserum. „Það verður því áhugavert að fylgjast með fundi peningastefnunefndar í næstu viku og heyra hver sýn bankans er á þessa framkvæmd og hvort hann telji sig hafa náð markmiðum sínum með henni eða ekki,“ segir Birgir.

Seðlabankinn boðaði kaup á ríkisskuldabréfum, svokallaða magnbundna íhlutun, fyrir allt að 150 milljarða í mars, en þannig vildi bankinn tryggja að fjármagnsþörf ríkisins myndi ekki þrýsta upp ávöxtunarkröfunni. Í byrjun nóvember hafði bankinn hins vegar aðeins keypt ríkisbréf fyrir 900 milljónir króna.

„Ég veit ekki til þess að seðlabanki í þróuðu ríki hafi hvorki hafið magnbundna íhlutun að ráði né gefið leiðsögn um vaxtaþróun frá því að heimsfaraldurinn hófst og því er Seðlabanki Íslands líklega nokkuð sér á báti hvað það varðar – því þarf ekki að koma á óvart að vextir hafi hér rokið upp langt umfram nær öll önnur ríki seinustu mánuði,“ segir Agnar.

Talið var að Seðlabankinn hefði ákveðið að vera í biðstöðu þangað til þrýstingur á markaði vegna sölu BlueBay Asset Management á íslenskum ríkisskuldabréfum minnkaði. BlueBay, sem er eitt stærsta sérhæfða skuldabréfastýringarfyrirtæki Evrópu, seldi öll eftirstandandi ríkisskuldabréf sín fyrir meira en 20 milljarða króna síðustu vikuna í október. Í kjölfarið steig Seðlabankinn inn á markaðinn og hóf að nýju kaup á ríkisskuldabréfum í þessari viku.

Skortur á lausafé ekki vandinn

„Nú sérstaklega seinustu mánuði,“ útskýrir Agnar, „hafa forsvarsmenn bankans ítrekað í máli og riti að þeir myndu bregðast við ef mikill hallarekstur hins opinbera myndi leiða til óeðlilegrar hækkunar á langtímavöxtum og það er ekki fyrr en í þessari viku sem það örlar á aðgerðum. Ég held að bankinn hafi tapað trúverðugleika með síendurteknum yfirlýsingum sem hann hefur ekki staðið við, sem hafi smám saman grafið undan skuldabréfamarkaðnum og trú hans á að geta virkað sem skyldi án hjálpar frá Seðlabankanum.“

„Íhlutun bankans hefur reynst bæði magnlaus og andlaus og er Seðlabankinn að missa trúverðugleika sinn varðandi þessa framkvæmd.“

Þá segir hann að skortur á lausu fé virðist ekki vera vandamálið þar sem innlán heimila, fyrirtækja og lífeyrissjóða, sem bera mun lægri raunvexti en skuldabréf, hafa vaxið mikið á árinu.

„Heldur ekki vaxtamunur við útlönd sem hefur rokið upp, en sem dæmi eru langtíma raunvextir svipaðir og þeir voru fyrir ári á meðan þeir hafa lækkað um heilt prósentustig í Bandaríkjunum. Þróun vaxtastigs á skuldabréfamarkaði virðist því að mestu leyti orsakast af hnökrum í miðlun peningastefnunnar,“ segir Agnar.

Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá Kviku banka, og Birgir Haraldsson, sjóðsstjóri hjá AKTA sjóðum.

Birgir tekur í sama streng og bendir á að framboð á ríkisbréfum frá því að Seðlabankinn tilkynnti fyrst um magnbundna íhlutun hafi verið fyrirsjáanlegt. Seðlabankinn hafi aftur á móti verið ófyrirsjáanlegur og mjög óskýr í sínum aðgerðum.

„Aðgerðin átti að sporna gegn því að stóraukin og fyrirsjáanleg útgáfuþörf ríkissjóðs myndi þrýsta upp vaxtastigi í landinu. Íhlutun bankans hefur reynst bæði magnlaus og andlaus og er Seðlabankinn að missa trúverðugleika sinn varðandi þessa framkvæmd,“ segir Birgir.