Vísi­tala neyslu­verðs fyrir júlí hækkaði mun meira en greiningar­aðilar bjuggust við og er árs­verð­bólgan nú 9,9 prósent sam­kvæmt mælingum Hag­stofunnar.

Virðist árs­verð­bólgan munu rjúfa tveggja tölu múrinn í ágúst og tals­verðar líkur eru á að hún fari yfir 12 prósent fyrir árs­lok og byrji jafn­vel ekki að lækka á ný fyrr en í febrúar.

Kjara­samningar á al­mennum vinnu­markaði eru lausir í haust og ljóst að verka­lýðs­hreyfingin mun leggja ríka á­herslu á kjara­bætur til að vega upp á móti mikilli verð­bólgu og háum vöxtum. Þá nærir verð­bólgan sjálfa sig meðal annars vegna þess að stór hluti kostnaðar fyrir­tækja liggur í verð­tryggðum húsa­leigu­samningum og launum.

Jón Bjarki Bents­son, aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka, telur lík­legt að verð­bólga mælist rúm 10 prósent í næsta mánuði. „Okkur sýnist að verð­bólgu­takturinn verði svo á­fram rétt um 10 prósent út árið að því gefnu að það fari heldur að hægja á hækkun í­búðar­verðs og inn­flutnings­verð verði til­tölu­lega stöðugt.

Ef launa­hækkanir verða hóf­legar, eða að minnsta kosti í takti við launa­þróun undan­farinn ára­tug eða svo, eru góðar líkur á að verð­bólgu­takturinn gefi eftir þegar lengra líður á komandi vetur, jafn­vægi á hús­næðis­markaði batnar og inn­flutt verð­bólga hjaðnar. Það má hins vegar ekki mikið út af bregða svo verð­bólga verði ekki þrá­látari,“ segir Jón Bjarki.