Þrátt fyrir að spár greinenda geri ráð fyrir að verðbólgan leiti aftur niður í verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands geta ýmsir óvissuþættir orðið til þess að hún verði erfið viðureignar fyrir bankann.

„Það hefur komið mörgum á óvart hversu seig verðbólgan er. Margt af því sem liggur að baki mætti flokka sem einskiptisliði en aðrir þættir eins og til að mynda vaxandi launakostnaður hérlendis valda áhyggjum til lengri tíma litið,“ segir Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,3 prósent. Mars var þriðji mánuðurinn í röð þar sem verðbólga var yfir efri vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.

Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, telur líklegast að verðbólgan muni hjaðna á næstu mánuðum og verði komin niður í 2,5 prósenta markmið Seðlabankans í lok þessa árs eða byrjun næsta.

„En hún gæti tekið beygjur á leiðinni. Það eru ýmsir óvissuþættir sem gætu haft áhrif á þessa þróun,“ bætir Daníel við. Á meðal þeirra er þróun verðbólgu erlendis, sérstaklega í Bandaríkjunum, sem gæti smitast hingað til lands í gegnum verðlag innfluttra vara. „Þetta eru þó tímabundnir þættir vegna truflana í framleiðslu og hækkandi flutningskostnaðar. Þegar COVID-áhrifin hafa gengið yfir ætti ástandið að verða eðlilegt á ný.“

Þá gæti aukinn þrýstingur á húsnæðismarkaði valdið því að verðbólgan verði þrálátari en Seðlabankinn myndi vilja. Helstu kraftarnir sem toga verðbólguna niður eru hins vegar gengisstyrking krónunnar frá áramótum og framleiðsluslaki í hagkerfinu.

„Það væri óskynsamlegt að hækka vexti áður en hagkerfið er komið út úr samdráttarskeiðinu.“

Aðspurður segir Daníel þó ólíklegt að Seðlabankinn hækki vexti á allra næstu mánuðum til að bregðast við óhagfelldri verðbólguþróun.

„Óvissuna má að miklu leyti rekja til þátta sem vextir Seðlabankans hafa lítil áhrif á, svo sem innflutta verðbólgu og olíuverð. Seðlabankinn getur notað vaxtahækkanir til að kæla fasteignamarkaðinn en hann hefur einnig önnur tól, eins og að þrengja lántökuskilyrði. Það væri óskynsamlegt að hækka vexti áður en hagkerfið er komið út úr samdráttarskeiðinu,“ segir Daníel.

Valdimar segir það athyglisvert að Seðlabankinn virðist hafa meiri áhyggjur af þenslu hagkerfisins í framtíðinni heldur en kólnun þess í dag, sem birtist meðal annars í atvinnuleysistölum.

„Seðlabankinn hefur sífellt minnt á að hann geti þurft að hækka vexti og ítrekað bent á að bankinn og stjórnvöld geti ekki bæði stigið samtímis á bensíngjöfina. Seðlabankinn og stjórnvöld hljóta að geta gengið að einhverju leyti í takt en ekki unnið á móti hvort öðru alltaf.“

Verðbólguvæntingar hafa verið að stíga upp á við jafnt og þétt frá áramótum. Vorkannanir Gallup benda til þess að stjórnendur fyrirtækja vænti 3 prósenta verðbólgu að ári liðnu og að heimili búist við 4 prósenta verðbólgu.

Í síðustu fundargerð peningastefnunefndar kom fram að nefndarmenn hefðu áhyggjur af því að verðbólguvæntingar hefðu hækkað lítillega þótt of snemmt væri að álykta um hvort kjölfesta þeirra við verðbólgumarkmið bankans hefði veikst.

Væntingar stjórnenda fyrirtækja um meðalverðbólgu á næstu fimm árum hækkuðu einnig, um 0,3 prósentustig, og námu 2,8 prósentum. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði til fimm og tíu ára hefur jafnframt þokast upp.

„Það sem vekur sérstaka athygli á skuldabréfamarkaðnum er að verðbólguvæntingar til lengri tíma hafa hækkað meira heldur en væntingar til skemmri tíma. Það gæti valdið Seðlabankanum einhverjum áhyggjum.“

„Það sem vekur sérstaka athygli á skuldabréfamarkaðnum er að verðbólguvæntingar til lengri tíma hafa hækkað meira heldur en væntingar til skemmri tíma. Það gæti valdið Seðlabankanum einhverjum áhyggjum. Engu að síður eru væntingarnar ekki komnar fram úr sér og eru til að mynda enn undir núverandi ársverðbólgu sem sýnir að markaðurinn gerir enn ráð fyrir að verðbólgan ílengist ekki,“ segir Valdimar Ármann.

Birgir Haraldsson, sjóðsstjóri hjá Akta, birti grein í Markaðinum í síðustu viku þar sem hann færði rök fyrir því að ekki væri útilokað að væntingar um vaxtahækkanir Seðlabankans tækju miklum breytingum á næstu misserum. Ekki síst ef verðbólgusviðsmyndin súrnar vegna versnandi verðbólguvæntinga heimila og fyrirtækja.

„Allar hækkanir á þessum mælikvarða héðan í frá myndu þýða verstu niðurstöðu mælinga síðan í ársbyrjun 2014 og vekja upp réttmætar spurningar um hvort kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið sé rofin og verðbólguvandinn þannig að umbreytast í viðvarandi vandamál,“ skrifaði Birgir.

Verðbólga í vegi fyrir magnbundinni íhlutun

Í síðustu fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands ræddi nefndin heimild bankans til kaupa á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði. Þar kom fram að þróun verðbólgunnar væri ein af ástæðunum fyrir því að bankinn hefði ekki nýtt heimildina í meiri mæli.

„Í ljósi þess að verðbólga væri enn yfir markmiði væri ekki ráðlegt að bankinn beitti sér af krafti á skuldabréfamarkaði,“ segir í fundargerðinni. Halli á ríkissjóði hefði einnig verið minni í fyrra en búist var við í upphafi faraldursins og því hefði verið minni þörf á skuldabréfakaupum bankans. Hins vegar væri útlit fyrir aukinn halla á ríkissjóði á þessu ári og því væri mikilvægt að fylgjast áfram náið með þróuninni á skuldabréfamarkaði.

„Hjaðni verðbólga að markmiði gæti skapast svigrúm til kröftugri innkomu bankans ef þörf verði á.“