Ekki er líklegt að laun á Íslandi fari í gegnum sambærilegt aðlögunarferli og eftir fjármálaáfallið 2008, þegar fall gengis krónunnar lækkaði laun á Íslandi í alþjóðlegum samanburði og undirbjó jarðveginn fyrir mikla atvinnusköpun í ferðaiðnaði.

Orðnar og væntanlegar launahækkanir samkvæmt Lífskjarasamningnum og stefna Seðlabanka Íslands um að halda gengi krónunnar stöðugu mun að öllum líkindum tryggja að raungengi á mælikvarða launa haldist enn fyrir ofan meðaltal síðustu 15 ára, að því er lesa má úr gögnum Hagstofunnar. Því má teljast líklegt að aukið atvinnuleysi muni grafa um sig hér á landi. Einnig eru vísbendingar um að hluti þeirra sem misst hafa vinnuna á undanförnum misserum muni hverfa varanlega af vinnumarkaði.

Samkvæmt nýjustu tölum Vinnumálastofnunar var almennt atvinnuleysi 9 prósent í septembermánuði. Í nýlegri umfjöllun kjaratölfræðinefndar segir að atvinnuþátttaka sé þegar farin að minnka. Þannig hafi atvinnuþátttaka mælst um 80 prósent um mitt ár 2020, samanborið við 82 prósent á sama tíma í fyrra. „Þetta bendir til þess að hluti þeirra einstaklinga sem eru án vinnu sé vonlítill og velji að hætta leit að störfum,“ segir í umfjöllun nefndarinnar.

Þrátt fyrir að sú efnahagslægð sem nú ríður yfir landið hafi komi fyrst og einna harðast niður á þeim sem starfa í ferðatengdum greinum, þá gætir áhrifa kreppunnar víðast hvar. Í skýrslu kjaratölfræðinefndar um stöðu efnahagsmála í desember sagði meðal annars: „Dregið hefur verið úr starfsemi fjölmargra fyrirtækja, þúsundir hafa misst vinnuna eða eru í skertu starfshlutfalli og eftirspurn innanlands og erlendis frá hefur dregist mikið saman. Þótt áfallið sé mest í ferðaþjónustu og tengdum greinum, nær það til flestra, en þó ekki allra, atvinnugreina.“

Anna Hrefna Ingimundardóttir, hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, segir raungengi skoðað á mælikvarða launakostnaðar hverrar framleiddrar einingar gefi góða mynd af framleiðni íslenska hagkerfisins. „Ef raungengi á mælikvarða launa hækkar, þýðir það að launakostnaður á einingu hafi hækkað hérlendis samanborið við viðskiptalöndin eftir að leiðrétt hefur verið fyrir gengisbreytingum gjaldmiðla. Það gefur því vísbendingu um alþjóðlega samkeppnishæfni þar sem hækkun raungengis þýðir að samkeppnisstaða innlendra aðila versnar, að öðru óbreyttu,“ segir Anna Hrefna, en raungengi á mælikvarða launakostnaðar er enn þá um 13 prósent yfir meðaltali síðustu 30 ára. Í samanburði féll sama gildi um 40 prósent undir það meðaltal eftir fjármálahrunið 2008.

Þá eru líkur á að veikari samkeppnisstaða þjóðarbúsins myndi leiða til aukins atvinnuleysis

Hún bætir því við að ef og þegar umsamdar launahækkanir koma til framkvæmda á næsta ári muni raungengið halda áfram að hækka og þar með muni draga áfram úr samkeppnishæfni hagkerfisins, sérstaklega ef Seðlabanki Íslands heldur áfram að selja gjaldeyri til að koma í veg fyrir veikingu krónunnar: „Ef laun á Íslandi hækka umfram laun erlendis, þrýstingur myndast á gengi krónunnar til veikingar og ef Seðlabankinn leggst gegn þeim þrýstingi, er á vissan hátt verið að takmarka leiðréttingu verðlags í gegnum gengisfarveginn. Sá ventill myndi því ekki virka á sama hátt og hann hefur gert í fortíðinni. Þá eru líkur á að veikari samkeppnisstaða þjóðarbúsins myndi leiða til aukins atvinnuleysis,“ segir hún.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri verkalýðsfélagsins Eflingar, segir að ýmsir kraftar vinni nú gegn neikvæðri þróun í atvinnumálum: „Við teljum það afar jákvætt að launahækkanir verka- og láglaunafólks séu tryggðar með hinum langa Lífskjarasamningi. Þær hækkanir verja kaupmátt hinna lægst launuðu og stuðla að örvun hagkerfisins. Hvort tveggja er gott og nauðsynlegt,“ segir hann. Hvað varðar þá aukningu atvinnuleysis sem nú er í pípunum sé mikilvægast að hækka bætur til þeirra sem eru án vinnu.

Einnig nefnir hann að ríkið þurfi að stíga inn í núverandi ástand með atvinnusköpun: „Þar eru miklir möguleikar. Það er enn mikil vöntun á fólki í umönnunarstörf og á leikskóla, sem bendir til þess að meira þurfi að gera til að laða fólk að þeim störfum,“ segir Viðar og bætir því við að ýmsar framkvæmdir á vegum hins opinbera við viðhald og innviðauppbyggingu geti spilað veigamikið hlutverk við að auka þrótt vinnumarkaðar.