Náðst hefur samkomulag milli Seðlabanka Íslands og Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LIVE) vegna brots sjóðsins á lögum um verðbréfaviðskipti.

Með sáttinni viðurkennir LIVE að hafa brotið gegn lögum með því að hafa láðst að tilkynna um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar í smásölufyrirtækinu Högum hf. innan lögbundins tímafrests. Þá fellst LIVE á að greiða sekt sem nemur 2,2 milljónum króna.

Málið varðar kaup sjóðsins á hlutabréfum í Högum hf. þann 16. mars síðastliðinn en með kaupunum fór hann með yfir 10% hlut í félaginu. Í ljósi þess bar LIVE að tilkynna viðskiptin til Fjármálaeftirlitsins og Haga hf. í síðasta lagi 17. mars.

Tilkynningin barst hins vegar ekki fyrr en 20. mars og óskaði stjórn sjóðsins eftir því að ljúka málinu með sátt. Samkomulagið var gert hinn 16. júlí síðastliðinn en var fyrst kunngjört í gær