Einungis tveir lífeyrissjóðir tóku beinan þátt í hlutafjárútboði Arnarlax í síðasta mánuði, eftir því sem Markaðurinn kemst næst. Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Gildi. Markaðsvirði fiskeldisins er 44,5 milljarðar króna.

Fram kom í fréttum skömmu fyrir hlutafjárútboðið að Gildi og sjóður á vegum Stefnis, sjóðastýringarfyrirtækis Arion banka, ásamt norskum fjárfesti, yrðu hornsteinafjárfestar í útboðinu. Að því loknu færi félagið á Merkur-markaðinn í kauphöllinni í Osló.

15 lífeyrissjóðir spurðir

Markaðurinn hafði samband við 15 lífeyrissjóði, aðra en Gildi, og einungis Lífeyrissjóður Vestmannaeyja kvaðst hafa tekið þátt í útboðinu. Hann fjárfesti fyrir 146 milljónir króna.

Gildi er annar stærsti hluthafi Arnarlax með 5,5 prósenta hlut. Markaðsvirði hlutarins er um 2,4 milljarðar króna. Þriðji stærsti hluthafinn er Gyða – félag í eigu Kjartans Ólafssonar stjórnarformanns fiskeldisins – með 3,2 prósenta hlut. Markaðsvirði hlutarins er 1,4 milljarðar.

Gyða seldi um 22 prósent af eign sinni samhliða hlutafjárútboðinu, en fyrir það átti félagið 4,8 prósenta hlut í Arnarlaxi.

Sjóður á vegum Stefnis er áttundi stærsti hluthafi Arnarlax með 2,2 prósenta hlut. Aðra íslenska hluthafa er ekki að finna á hluthafalistanum.

Stærsti hluthafi Arnarlax er norska fiskeldið SalMar með 51 prósents hlut.