Lífeyrissjóður Vestmannaeyja var eini lífeyrissjóður landsins sem tók þátt í seinni hluta hlutafjáraukningar Alvotech sem tilkynnt var um á dögunum, eftir því sem Markaðurinn kemst næst.

Einkafjárfestar og hlutabréfasjóðir skráðu sig fyrir megninu af 21 milljón Bandaríkjadala, jafnvirði 2,7 milljarða króna, viðbótarhlutafjáraukningu sem tilkynnt var um 19. janúar. Alvotech vildi ekki upplýsa Markaðinn um hverjir tóku þátt í hlutafjáraukningunni.

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja keypti fyrir fjórar milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega hálfs milljarðs króna, samkvæmt svörum frá sjóðnum. Hlutdeild Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja í útboðinu var 19 prósent.

Líftæknifyrirtækið Alvotech, sem stofnað var af Róberti Wessman, hyggur á skráningu á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinn með tvíhliðaskráningu í íslensku kauphöllina. Skráningin verður gerð með samruna við sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) Oaktree II.

Gert er ráð fyrir að sameining fyrirtækjanna skili Alvotech 475 milljónum dala, jafnvirði 61 milljarðs króna (ef gert er ráð fyrir engum innlausnum). Þetta felur í sér 250 milljóna dala innspýtingu reiðufjár sem kemur úr sjóðum Oaktree II (ef gert er ráð fyrir engum innlausnum), yfir 175 milljónum dala með beinni hlutafjáraukningu og 50 milljónum dala frá núverandi hluthöfum sem þeir fjármögnuðu fyrir árslok 2021.

Áætlað heildarvirði sameinaðs fyrirtækis er um 2,25 milljarðar dala.