Lífeyrissjóður verslunarmanna (LIVE) tók ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair Group, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. LIVE er í dag næststærsti hluthafi Icelandair með um 11,8 prósenta hlut.

Mikil óvissa var um aðkomu lífeyrissjóðanna að útboðinu en Markaðurinn greindi frá því í gær að skiptar skoðanir væru meðal stjórnarmanna þeirra um slíka þátttöku.

Hlutafjárútboð Icelandair Group hófst í gær og lauk klukkan 16 í dag. Er þátttaka lífeyrissjóðanna talin ráða úrslitum um það hvort félaginu takist að sækja sér nýtt hlutafé fyrir allt að 23 milljarða króna.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, stærsti lífeyrissjóður landsins, hefur samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ákveðið að taka þátt í hlutafjárútboðinu og skilað inn skuldbindandi tilboði fyrir umtalsverðum eignarhlut í flugfélaginu.

Mest óvissa hjá LIVE

Greint var frá því í gær að samkvæmt viðmælendum Markaðarins, meðal annars úr röðum lífeyrissjóðanna og eins í hópi ráðgjafa Icelandair við hlutafjárútboðið, þótti mest óvissa vera um afstöðu LIVE og Gildis.

Stjórn LIVE telur átta manns en samkvæmt heimildum Markaðarins var talsverð gjá á milli fulltrúa atvinnurekenda annars vegar og fulltrúa VR hins vegar í stjórninni.

Forysta verkalýðshreyfingarinnar lagst gegn þátttöku

Sumir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar, nú síðast Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafa tjáð sig um hlutafjárútboð Icelandair og mælt gegn því að eftirlaunasjóðir launafólks verði nýttir til að taka þátt í útboðinu.

Þá gaf stjórn VR út í júlí að mælst væri til þess að stjórnarmenn VR í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna myndu ýmist sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku LIVE í hlutafjárútboðinu. Síðar dró Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, til baka þau tilmæli sín að stjórn LIVE skyldi sniðganga hlutafjárútboðið.

Ragnar vildi ekki tjá sig um ákvörðun stjórnar LIVE þegar eftir því var leitað í kvöld.