Lífeyrissjóðir landsmanna voru 96 talsins árið 1980 en eru nú 21 talsins, þar af nokkrir sem taka ekki við iðgjöldum en greiða sjóðfélögum sínum lífeyri. Þessi mikla fækkun hefur átt sér stað að frumkvæði sjóðanna sjálfra og er í samræmi við lýðræðislegan vilja sjóðfélaga. Þetta segir Þórey Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Fram kom í Fréttablaðinu í gær að mikill meirihluti landsmanna vilji fækka lífeyrissjóðum eða um 78 prósent, samkvæmt könnun Prósents.

„Fækkun sjóða er liður í hagræðingu og skilvirkni í lífeyrissjóðakerfinu og vissulega má gera betur í þessum efnum þegar horft er til þess að liðlega helmingur sjóðanna nú á einungis um tíu prósent heildareigna lífeyrissjóðakerfisins,“ segir Þórey.

Heimild: Landssamtök lífeyrissjóða

Hún bendir á að tíu stærstu lífeyrissjóðirnir eigi 88 prósent heildareigna í kerfinu. „Fyrst og síðast ráða samt sjóðirnir sjálfir og sjóðfélagar þeirra för sinni varðandi frekari samruna og fækkun.“

Þórey segir á að rekstrar- og fjárfestingarkostnaður íslenskra lífeyrissjóða sé síst hærri en hjá erlendum lífeyrissjóðum sem við berum okkur helst saman við. „Íslenska lífeyrissjóðakerfið er mjög öflugt á alþjóðlega mælikvarða og við eigum forverum okkar mikið að þakka fyrir að hafa sett það á stofn. Nú er það okkar að reka það vel og hlúa að framtíð þess,“ segir hún.

Heimild: Landssamtök lífeyrissjóða.

Þórey segir að stjórnvöld þurfi að huga betur að almannatryggingakerfinu. „Þar ríkir mest óánægja meðal eldri borgara landsins sem verða fyrir verulegum tekjuskerðingum vegna áhrifa af samspili almannatrygginga og lífeyrissjóðakerfisins. Lífeyrissjóðir hafa ekkert með skertar greiðslur eftirlauna frá ríkinu að gera. Þar er við löggjafarvaldið og stjórnvöld að eiga og breytir engu hvor lífeyrissjóðir eru fleiri eða færri, svo það sé nú sagt,“ segir hún.