Samkomulag Seðlabanka Íslands við lífeyrissjóðina, um að þeir myndu gera hlé á gjaldeyriskaupum sínum vegna fjárfestinga sjóðanna erlendis, verður ekki framlengt þegar það rennur út í næstu viku. Samkvæmt heimildum Markaðarins er enginn vilji til þess á meðal lífeyrissjóðanna að þeir haldi áfram að sér höndum í erlendum fjárfestingum. Er það sameiginlegur skilningur á meðal forsvarsmanna helstu sjóðanna að samkomulagið við Seðlabankann verði því ekki endurnýjað.

Tilkynnt var í júní að samkomulag bankans og lífeyrissjóðanna frá því í marsmánuði hefði verið framlengt um þrjá mánuði til viðbótar, eða til 17. september. Tilgangur þess er að bregðast við miklum samdrætti útflutnings af völdum kórónaveirufaraldursins og stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.

Núverandi samkomulag milli sjóðanna og Seðlabankans rennur því að óbreyttu út eftir rúmlega viku. Ekki stóðu þó allir lífeyrissjóðir að síðasta samkomulagi, samkvæmt heimildum Markaðarins, en meðal annars var Gildi ekki í þeim hópi.

Á fundi sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri átti með stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða og framkvæmdastjórum um miðjan júní síðastliðinn, voru uppi talsverðar efasemdir hjá sjóðunum um að verða við beiðni hans um að fallast á hlé á gjaldeyriskaupum í þrjá mánuði til viðbótar. Samkvæmt heimildum Markaðarins kom skýrt fram í máli sumra fulltrúa stærstu sjóðanna á þeim fundi að þetta yrði í síðasta sinn sem þeir myndu undirgangast slíkt samkomulag við Seðlabankann.

Þótt lífeyrissjóðirnir hafi að mestu gert hlé á erlendum fjárfestingum undanfarna sex mánuði – þeir hafa samt staðið að gjaldeyriskaupum til að standa við þegar gerðar skuldbindingar sínar – hefur gengið krónunnar gefið eftir um liðlega 20 prósent gagnvart evru á árinu. Stendur gengið nú í um 165 krónum gegn evrunni en var í um 140 krónum í lok febrúar. Þá nemur hrein gjaldeyrissala Seðlabankans úr gjaldeyrisforða sínum yfir 200 milljónum evra, jafnvirði 33 milljarða króna á núverandi gengi, frá upphafi faraldursins og hafa þau inngrip bankans spornað gegn enn meiri gengisveikingu en ella.

Lífeyrissjóðirnir hafa á undanförnum árum stóraukið við erlendar fjárfestingar sínar eftir að losað var um fjármagnshöftin. Að jafnaði hafa gjaldeyriskaup sjóðanna vegna slíkra fjárfestinga numið að meðaltali um 10 milljörðum króna á mánuði. Erlendar eignir sjóðanna hafa á þessum tíma aukist um þriðjung og eru nú um 32 prósent af heildareignum þeirra, en þær námu yfir 5.300 milljörðum króna í lok júlí.

Ef umfang gjaldeyriskaupa lífeyrissjóðanna verður með einhverjum sambærilegum hætti þegar samkomulagið við Seðlabankann rennur úr gildi er ljóst að það gæti skapað mikinn þrýsting á gengi krónunnar. Ólíklegt verður hins vegar að teljast að lífeyrissjóðirnir sjái hag sínum borgið við núverandi kringumstæður með því að standa að stórfelldum erlendum fjárfestingum, ekki hvað síst með hliðsjón af því að nafngengi krónunnar gagnvart evru hefur ekki verið lægra frá árinu 2013.


Í viðtali við Fréttablaðið þann 27. ágúst síðastliðinn benti seðlabankastjóri á að lífeyrissjóðirnir hefðu áður verið að nýta sér mikinn og stöðugan viðskiptaafgang þjóðarbúsins síðustu ár og fjárfesta hann erlendis. „Þannig var jafnvægi tryggt á gjaldeyrismarkaði fyrir tíma COVID. Nú hefur afgangurinn horfið og viðbúið að ef sjóðirnir halda áfram að fjárfesta með sama hætti þá mun það annaðhvort koma með gengislækkun eða ganga á gjaldeyrisforða Seðlabankans,“ sagði Ásgeir.

Þá sagðist hann gera ráð fyrir því að sjóðirnir myndu áfram sýna samfélagslega ábyrgð í gjaldeyriskaupum svo lengi sem farsóttin varir. „Kannski verður ekki lögð ein lína fyrir alla sjóði en allir hljóta þeir að átta sig á því hver staðan er. Ég held að fæstir vilji að sjóðurinn sem þeir greiða í standi í gjaldeyriskaupum sem veikja gengið og skapa óstöðugleika og verðbólgu.“