Samheitalyfjafyrirtækið Coripharma hefur gengið frá 2,5 milljarða króna hlutafjáraukningu til þess að fjármagna áframhaldandi þróun á samheitalyfjum. Umframeftirspurn var eftir nýjum hlutum í íslenska fyrirtækinu, sem áætlar að setja fyrsta samheitalyf sitt á markað í sumar.

„Það er ánægjulegt að sjá þennan mikla áhuga íslenskra fjárfesta á að taka þátt í uppbyggingu félagsins og að viðhalda þessum mikilvæga þekkingariðnaði hérlendis,“ segir Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma. „Þróun samheitalyfja er bæði kostnaðarsöm og tímafrek,“ bætir hún við og nefnir að fyrirtækið muni verja um 9 milljónum evra, jafnvirði um 1,6 milljarða króna, í rannsóknir og þróun í ár. „Það er því gríðarlega mikilvægt að fá þetta fjármagn inn á þessu viðkvæma vaxtarskeiði, en Coripharma gerir ráð fyrir að þróa og markaðssetja 5-6 samheitalyf árlega.“

Coripharma er íslenskt samheitalyfjafyrirtæki sem tók yfir verksmiðju og þróunareiningu Teva (áður Actavis) í Hafnarfirði fyrir fáeinum árum. Félagið sérhæfir sig í þróun og framleiðslu samheitalyfja, ásamt því að sinna verktökuframleiðslu fyrir önnur lyfjafyrirtæki. Starfsfólk Coripharma telur um 130 manns og er hópur fólks með áralanga reynslu í þróun, framleiðslu og sölu á lyfjahugviti og samheitalyfjum til annarra lyfjafyrirtækja um allan heim.

Stærsti, nýi hluthafinn er Iðunn framtakssjóður sem er nýstofnaður framtakssjóður í rekstri Kviku eignastýringar. Hluthafar Iðunnar eru flestir af stærstu lífeyrissjóðum landsins. Eftir hlutafjárhækkunina ræður Iðunn yfir 19 prósenta hlut í Coripharma og er þar með orðinn stærsti hluthafi fyrirtækisins.

Meðal annarra stórra hluthafa má nefna framtakssjóðinn TFII, sem er í stýringu Íslenskra verðbréfa, BKP Invest, sem er í meirihlutaeigu Bjarna K. Þorvarðarsonar stjórnarformanns Coripharma, Vátryggingafélag Íslands, Snæból og Eignarhaldsfélagið Hof. Fjárfestarnir eru bæði innlendir og erlendir, auk þess sem íslenskir lífeyrissjóðir koma nú að hlutafjárhækkun félagsins í fyrsta sinn með beinum hætti. Fyrirtækjaráðgjöf Kviku var ráðgjafi Coripharma við hlutafjáraukninguna.

Ásamt því að renna stoðum undir þróunar- og rannsóknastarf Cori­pharma mun hlutafjáraukningin styrkja stefnu félagsins um bættan aðgang að erlendum mörkuðum að sögn Jónínu. „Við erum að byrja að laða til okkar markaðsfólk sem kemur til okkar með tilkomumikið tengslanet og mikla reynslu á samheitalyfjamarkaðinum. Þannig erum við nú komin með fólk sem starfar við viðskiptaþróun á þýska og spænska markaðinum og fyrir liggur að bæta við markaðstengdum mannauði á öllum helstu mörkuðum.“

Fyrsta samheitalyfið sem er þróað og framleitt af Coripharma kemur á markað í Evrópu nú í sumar. „Við höfum tryggt okkur samninga við lyfjafyrirtæki í Evrópu sem kaupa aðgang að hugvitinu og vörunni, en Coripharma mun framleiða og pakka lyfinu í Hafnar­firðinum á meðan viðskiptavinir Coripharma munu markaðssetja lyfin í Evrópu undir sínum eigin vörumerkjum.“

Umhverfið batnar

Spurð um rekstrarumhverfi Cori­pharma hér á landi segist Jónína oft hafa verið spurð hvers vegna ákveðið var að setja upp starf­semina á Íslandi.

„Ein af ástæðunum er að hér á landi hefur byggst upp umfangsmikil þekking á samheitalyfjaiðnaði og hér er mjög gott aðgengi að reyndum sérfræðingum í lyfjaþróun og framleiðslu. Gríðarlega mikilvægt er að hafa gott aðgengi að þolinmóðu fjármagni en auk þess hefur opinber stuðningur við fyrirtæki í hugverkaiðnaði, sem byggja að stórum hluta á rannsóknum, þróun og nýsköpun, verið að batna hérlendis.“

„Ef þær breytingar sem kynntar voru í fyrra verða festar í sessi, getur Ísland klárlega laðað til sín fleiri fyrirtæki í þróun og nýsköpun.“

Samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins námu útflutningstekjur hugverkaiðnaðar 15 prósentum af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins árið 2020. Jónína segir að íslensk yfirvöld séu að vakna til vitundar um þá samkeppni sem ríkir meðal þjóða um að laða að sér nýsköpunarfyrirtæki. Yfirvöld hafa meðal annars aukið stuðning við hugverkaiðnaðinn og innleitt aukna hvata, svo sem í formi endurgreiðsluhlutfalls vegna rannsókna og þróunar.

„Markmiðið er auðvitað að skapa fyrirsjáanleika í rekstri og gera fyrirtækjum í rannsóknum og þróun kleift að gera langtímaáætlanir,“ segir Jónína. „Ef þær breytingar sem kynntar voru í fyrra verða festar í sessi, getur Ísland klárlega laðað til sín fleiri fyrirtæki í þróun og nýsköpun. Og þetta snýst ekki einungis um að fá þróunarstarfsemina og skapa hálaunastörf í landinu, heldur einnig um framleiðsluna, afleiddu störfin og útflutningstekjurnar sem skila sér á endanum.“

Gangi áætlanir Coripharma eftir mun félagið velta um 75 milljónum evra, jafnvirði 11,3 milljarða króna, árið 2025 og skapa 260 störf í þekkingargeiranum.