Íslenska líftæknifyrirtækið Alvotech hefur gengið frá fjármögnun upp á samtals 65 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 9 milljarða króna, en um er að ræða stóra fjárfesta úr lyfjageiranum í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu sem munu leggja félaginu til aukið hlutafé. Alvotech hefur á undanförnum mánuðum unnið að útgáfu á nýju hlutafé að fjárhæð 100 milljónir dala en félagið væntir þess að ljúka útboðinu í næsta mánuði, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Á meðal fjárfesta sem skoða nú að fjárfesta í fyrirtækinu eru íslenskir lífeyrissjóðir. Fulltrúar lífeyrissjóðanna hafa á undanförnum vikum átt fjárfestafundi með stjórnendum og innlendum ráðgjöfum Alvotech en verði af fjárfestingu þeirra yrði það í fyrsta sinn sem íslenskir stofnanafjárfestar koma í eigendahóp félagsins.

Sumir af stærstu lífeyrissjóðum landsins hafa undirritað trúnaðaryfirlýsingar og fengið þá um leið aðgang að rafrænu gagnaherbergi með ítarlegri upplýsingum um fjárhagsstöðu Alvotech. Það er verðbréfafyrirtækið Arctica Finance sem er ráðgjafi Alvotech við hlutafjáraukninguna hér innanlands.

Fjármögnun Alvotech, sem er stýrt af Róberti Wessman, stofnanda félagsins, er ætlað að styðja við rekstur þess fram að skráningu á markað á árinu 2021 samhliða hlutafjárútboði. Samkvæmt fjárfestakynningu Alvotech er stefnt að skráningu í kauphöll í Hong Kong en markaðsvirði félagsins nú er talið vera liðlega 1,4 milljarðar Bandaríkjadala, jafnvirði um 195 milljarða króna. Alþjóðlegu fjárfestingabankarnir Morgan Stanley, Goldman Sachs og HSBC verða ráðgjafar félagsins við þá skráningu.

Miðað við markaðsvirði Alvotech í hlutafjáraukningunni sem nú stendur yfir mun 100 milljóna dala hlutur tryggja fjárfestunum samanlagt um sjö prósenta eignarhlut í fyrirtækinu.

Fram kemur í fjárfestakynningu félagsins, samkvæmt heimildum Markaðarins, að núverandi eigendur Alvotech muni leggja því til um 30 milljónir dala við hlutafjáraukninguna. Alvotech er í meirihlutaeigu Aztiq Pharma, undir forystu Róberts, og þá er lyfjafyrirtækið Alvogen, systurfélag Alvogen, stór hluthafi, en þar eru fyrir einir stærstu fjárfestingasjóðir í heiminum í dag, CVC Capital Management og Temasek sem er fjárfestingasjóður í Singapore. Aðrir hluthafar eru meðal annars alþjóðlegi fjárfestingasjóðurinn Yas Holding og japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma.

Stefnt hefur verið að því við hlutafjáraukninguna, að því er segir í fjárfestakynningunni, að fá inn nýja erlenda strategíska fjárfesta ásamt öðrum fjárfestum til að leggja félaginu til samtals um 70 milljónir dala. Til viðbótar við íslensku lífeyrissjóðina hefur fjárfestingin í Alvotech verið kynnt stórum fjárfestingafélögum hér innanlands þótt einkum sé horft til lífeyrissjóðina. Óvíst þykir hins vegar hvort af fjárfestingu þeirra í félaginu verði á þessu stigi.

Frá stofnun hafa hluthafar Alvotech lagt félaginu til um 340 milljónir dala en auk þess var gefið út breytanlegt skuldabréf að fjárhæð 300 milljónir dala í ársbyrjun 2019, þar sem Morgan Stanley var lykilfjárfestir, og verður því breytt í hlutabréf við skráningu erlendis.

Í ágúst var tilkynnt um að Alvotech og alþjóðlegi lyfjarisinn Teva Pharmaceuticals hefðu gert með sér samstarfssamning um þróun, framleiðslu og markaðssetningu fimm líftæknilyfja í Bandaríkjunum. Mun samningurinn tryggja Alvotech tekjur upp á hundruð milljarða króna á næstu árum. Fram hefur komið í máli stjórnenda félagsins að það stefni að því að velta Alvotech verði um 20 prósent af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins árið 2027.

Gera áætlanir ráð fyrir því að fyrirtækið ráði til sín 70 vísindamenn og sérfræðinga til viðbótar við þá 480 sem nú starfa hjá Alvotech, að stærstum hluta á Íslandi. Þá hyggst Alvotech ráðast í stækkun á hátæknisetri sínu í Vatnsmýrinni, sem var tekið í notkun í júní, þannig að það verði samtals 24 þúsund fermetrar að stærð – það er 13 þúsund fermetrar í dag – og er áætlað að sú fjárfesting kosti um 33 milljónir dala, jafnvirði 4,6 milljarða króna, samkvæmt fjárfestakynningunni.

Samtals eru átta líftæknilyf í þróun hjá Alvotech en félagið tilkynnti fyrr á árinu um góðan framgang á klínískum rannsóknum á sínu fyrsta lyfi, sem er líftæknihliðstæða lyfsins Humira. Það er söluhæsta lyf heims og selst fyrir um 20 milljarða dala á ári. Stefnt er að því að markaðssetja lyfið á heimsvísu á árinu 2023 og er lyfið hluti af samstarfssamningi Alvotech við Teva.

Alvotech var rekið með um 140 milljóna dala tapi í fyrra en tekjur félagsins hafa verið nánast engar á undanförnum árum þar sem það hefur ekki enn hafið sölu neinna lyfja. Eigið fé var neikvætt um 374 milljónir dala í árslok 2019 en heildarskuldir, sem eru einkum lántökur, námu 712 milljónum dala.