Fimmtíu prósenta þak á gjaldmiðlaáhættu lífeyrissjóða þrengir orðið mikið að fjárfestingum margra sjóða og takmarkar getu þeirra til að dreifa áhættu. Ef talið er nauðsynlegt að hafa mörk er æskilegt að hækka þau sem fyrst í 65 prósent. Þetta segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

„Ástæðan er sú að þeir sjóðir sem þegar eru komnir með hlutfallið vel yfir 40 prósent geta ekki farið nær efri mörkum vegna óvissu um gengi krónunnar enda gæti veiking hennar fleytt þeim yfir 50 prósenta markið og þá þyrfti að bregðast við,“ segir hún.

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.
Fréttablaðið/Eyþór

Greining Íslandsbanka og fleiri hafa sagt að útlit sé fyrir styrkingu krónu á komandi misserum. Má nefna að stærsta loðnuvertíð í tæpa tvo áratugi er fram undan og horfur eru á fjölgun ferðamanna. Þekkt er að mikið innflæði af gjaldeyri geti leitt til gengisstyrkingar en ef lífeyrissjóðir myndu nýta gjaldeyrisinnstreymið til fjárfestinga erlendis gæti það stuðlað að gengisstöðugleika.

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir að þrátt fyrir nokkuð eindregnar spár um styrkingu krónunnar í byrjun sumars hafi gengið gefið nokkuð eftir síðan þá. „Vísbendingar eru um að núverandi stig raungengis sé í ágætum takti við undirliggjandi þætti og sé því sjálfbært til lengri tíma, eins og Viðskiptaráð benti á í byrjun sumars. Því ætti ekki að koma endilega á óvart að krónan hafi ekki styrkst síðan í vor,“ segir hann.

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Að hans sögn geti framangreint breyst hratt og sé háð mikilli óvissu. „Við þekkjum af reynslunni fyrir fjármálakreppu og svo af áhrifum gengisstyrkingarinnar 2016 og 2017 á ferðaþjónustu, að of hröð og mikil styrking getur verið skaðleg til lengri tíma. Við erum samt í þeirri stöðu að mikið innflæði getur enn leitt til slíkrar styrkingar og því er ein leið til að lágmarka líkur á slíku að gefa lífeyrissjóðum frjálsari hendur um erlendar fjárfestingar.

Lífeyrissjóðirnir þurfa og munu þurfa að fjárfesta töluvert erlendis en þeir vaxa hraðar en hagkerfið. Þeir munu hafa sterkan hvata til að haga sínum gjaldeyriskaupum eftir stöðunni á markaði hverju sinni. Til dæmis liggur í augum uppi að það er skynsamlegt fyrir lífeyrissjóð að fjárfesta meira erlendis en annars ef mikið framboð er af gjaldeyri og krónan er sterk, að sama skapi hljóta þeir að halda frekar að sér höndum ef krónan er veik. Reynslan hefur enda hingað til verið í takt við þetta. Aðalatriðið er að lífeyrissjóðir geta myndað mikilvægt mótvægi í sveiflum á gjaldeyrisflæði, einkum vegna fjárfestingainnflæðis, og þá létt með Seðlabankanum. Þó að það sé skynsamlegt að hlutfallið hækki er það ekki síður mikilvægt í nafni stöðugleika að stigin séu varfærin skref,“ segir Konráð.

Mikilvægt fyrir sjóði í stækkunarfasa að fjárfesta erlendis

Innan Landssamtaka lífeyrissjóða hefur þak á gjaldmiðlaáhættu lífeyrissjóða fengið talsverða umræðu. „Það er ljóst að það er mikilvægt að hækka þessi mörk sem fyrst. Það eru ákveðnir sjóðir sem enn eru í miklum stækkunarfasa og fyrir þá er einkum mikilvægt að geta fjárfest erlendis og dreift áhættu,“ segir Þórey.

Að hennar sögn hefur verið til umræðu hvort nauðsynlegt sé yfir höfuð að hafa mörk þar sem sjóðir myndu ætíð meta fjárfestinguna út frá hagsmunum sinna sjóðfélaga.

Þórey segir að samhliða hækkun þaks á gjaldmiðlaáhættu í 65 prósent væri æskilegt að hrundið yrði af stað vinnu til að undirbyggja afnám slíkra marka, svo sem að styrkja regluverk um áhættustýringu og leggja mat á þjóðhagsleg áhrif fjárfestinga lífeyrissjóða á hagvöxt, greiðslujöfnuð, gengi og efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika.