Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, tveir stærstu lífeyrissjóðir landsins, voru helstu kaupendur að 6,3 prósenta hlut breska eignastýringarfyrirtækisins Miton Group í Sjóvá. Þetta má lesa út úr nýjum lista yfir tuttugu stærstu hluthafa tryggingafélagsins.

Lífeyrissjóður verslunarmanna bætti við sig 2,7 prósenta hlut í Sjóvá - að virði um 540 milljóna króna - og fer í kjölfarið með tæpan 8,6 prósenta hlut í félaginu á meðan Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins festi kaup á um 2,5 prósenta hlut í tryggingafélaginu. Fer síðarnefndi sjóðurinn nú með samanlagt 9,2 prósenta hlut í Sjóvá.

Þá hefur eignarhaldsfélag hjónanna Finns Reyrs Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur bætt við sig tólf milljónum hluta - tæplega 0,9 prósenta eignarhlut - í Sjóvá. Heldur félagið, Snæból, nú á 9,5 prósenta hlut í tryggingafélaginu og er þannig þriðji stærsti hluthafi þess.

Stapi lífeyrissjóður hefur jafnframt keypt um 0,7 prósenta hlut í Sjóvá og IS Hlutabréfasjóðurinn, sem er í stýringu Íslandssjóða, um 0,2 prósenta hlut, samkvæmt nýjum hluthafalista félagsins.

Eins og greint hefur verið frá í Markaðinum seldu tveir sjóðir í stýringu Miton Group samanlagt um 6,3 prósenta hlut í Sjóvá um miðjan mánuðinn. Salan var gerð á genginu 13,2 krónur á hlut og nam söluverðið þannig um 1.160 milljónum króna. Breska eignastýringarfélagið kom fyrst inn í hluthafahóp tryggingafélagsins á árinu 2017 og var fyrir söluna fimmti stærsti hluthafi þess.

Gengi hlutabréfa í Sjóvá hefur lækkað um ríflega 29 prósent undanfarnar fimm vikur og stendur nú í tæplega fimmtán krónum á hlut. Sé litið til síðustu tólf mánaða nemur gengislækkun bréfanna um 5,7 prósentum.