Lífeyrissjóðir hafa áhuga á að skoða það að fjárfesta í Leifsstöð. „Það skortir ekki vilja frá fjárfestum til þess að fara af alvöru í það verkefni,“ segir Ómar Örn Tryggvason, framkvæmdastjóri Innviða fjárfestinga, innviðasjóðs sem fjármagnaður er af lífeyrissjóðum. „Við höfum rætt við stjórnvöld um mögulega aðkomu að ISAVIA,“ segir hann.

Fram kom í fjölmiðlum í liðinni viku að ríkið hafi aukið við hlutafé ISAVIA um 15 milljarða króna til að mæta tapi sem rekja má til þess að COVID-19 hefur tímabundið lamað ferðamannaþjónustu í heiminum. Fjármunirnir gera félaginu kleift að hefja vinnu við uppbyggingu á Leifsstöð á nýjan leik.

Lauslega skoðað undanfarin ár

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að fjölbreyttar fjármögnunarleiðir fyrir ISAVIA hafi eingöngu verið lauslega skoðaðar undanfarin ár, að frumkvæði þeirra sem vilja bjóða fram hlutafé frá þekkingarfjárfestum í flugvallageiranum, en sú skoðun hafi ekki leitt til frekari vinnu.

„Ef taka ætti til skoðunar að selja hlutafé í ISAVIA til að draga úr áhættu ríkisins af framkvæmdum á flugvallarsvæðinu og rekstri flugvallarins, þyrfti að leita heimildar Alþingis til þess,“ segir hann.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Fréttablaðið/Anton Brink

Sérfræðingar á fjármálamarkaði segja að áhugavert skref hefði verið ef fjármögnunin hefði farið fram í gegnum hlutabréfamarkaðinn. Mögulega hefðu erlendir fagfjárfestar sýnt áhuga og lífeyrissjóðir hefðu getað keypt hlut í fyrirtæki sem skili gjaldeyristekjum. Að sama skapi hefði ríkið dregið úr umsvifum sínum í áhætturekstri.

Heimildarmenn sem þekkja vel til segja að það hefði verið erfitt fyrir meirihlutasamstarfið að koma til leiðar sölu á hlut í Íslandsbanka, eins og stefnt er að um þessar mundir, og ISAVIA á sama tíma.

Útilokar ekki sölu þegar fram í sækir

Bjarni segir að umrædd hlutafjáraukning ISAVIA útiloki ekki að hlutur í ISAVIA verði boðinn til sölu þegar fram í sækir. „Til skamms tíma tryggir hún hins vegar að hægt er að halda áfram með þau uppbyggingaráform sem lengi hefur verið unnið að og er þess vegna mikilvægur liður í að tryggja samkeppnishæfni flugvallarins, auk þess að styðja við atvinnulíf á Suðurnesjum.

Þannig stendur til að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir á árinu með tilheyrandi fjölgun starfa, auk þess sem hlutafjáraukningin eykur sveigjanleika ISAVIA til að koma sterkara út úr heimsfaraldrinum. Þannig verði félagið betur í stakk búið að mæta flugfélögum með hvatakerfi og markaðsstyrkjum þegar ferðatakmörkunum verður aflétt og þannig auðveldi það þeim að taka ákvörðun um að hefja flug fyrr en ella. Með þessu er stuðlað að hraðari viðsnúningi þegar birta fer til í ferðaþjónustu og flugleiðir opnast að nýju,“ segir hann.

Ómar Örn segir að fjárfestingar í innviðum, eins og til dæmis flugvöllum, séu eftirsóknarverðar fyrir lífeyrissjóði. Um sé að ræða eign með langt greiðsluflæði sem sé nokkuð verðtryggt. Það passi vel við skuldbindingar lífeyrissjóða. „Alþjóðlega hafa lífeyrissjóðir fjárfest umtalsvert í innviðum. Hið opinbera og stofnanafjárfestar eiga oft innviði sameiginlega og það samstarf hefur yfirleitt gengið vel. Með þeim hætti getur hið opinbera dregið úr fjármagnsþörf sinni eða nýtt fjármagnið í önnur brýn verkefni,“ segir hann og bendir á að „lífeyrissjóður kennara í Ontario í Kanada og danski ATP lífeyrissjóðurinn eigi saman um 59,4 prósenta hlut í Kaupmannahafnarflugvelli á móti tæplega 40 prósenta hlut danska ríkisins.“

Ómar Örn Tryggvason, framkvæmdastjóri Innviða fjárfestinga.

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) lagði til í skýrslu sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, óskaði eftir að skoða ætti breytt eignarhald á flugvöllum. Samkvæmt skýrslunni fóru um 74 prósent farþega í Evrópu í gegnum flugvöll sem var að hluta eða öllu leyti í einkaeigu árið 2016. Hlutfallið var 48 prósent árið 2010.

Sérfræðingur á fjármálamarkaði, sem vildi ekki láta nafns síns getið, velti því upp hvort það væri ekki hyggilegra að bíða í eitt til tvö ár með sölu á hlut í Leifsstöð, að minnsta kosti ef skrá á hlutabréfin í Kauphöll, því að lífeyrissjóðum gæti þótt nóg að eiga í flugfélaginu Icelandair eins og sakir standa, en mikil óvissa er í ferðaþjónustu um þessar mundir. Eins væri það stór biti fyrir markaðinn ef selja ætti hlut í ISAVIA og Íslandsbanka um svipað leyti.

Ómar Örn segir að áhættan við að eiga hlut í flugfélögum sé ekki sú sama og að eiga í flugvöllum, jafnvel þótt það sé einhver skörun. Til dæmis hafi sveiflur í olíuverði og mikil samkeppni á flugleiðum á tímabili, dregið úr afkomu flugfélaga. Þessir áhættuþættir hafi ekki bein áhrif á afkomu flugvalla þótt vissulega sé ekki um áhættulausa fjárfestingu að ræða, eins og síðasta ár beri með sér. „Flugfélög teljast ekki til innviða samfélaga,“ segir hann.

Óeðlilegt ef COVID hefði mikil áhrif á verðmatið

Aðspurður hvort heimsfaraldurinn geri það að verkum að verðið sem fengist fyrir hlut í ISAVIA yrði of lágt, telur Ómar Örn svo ekki vera. Verðlagningin tæki ekki mið af afkomu Leifsstöðvar í fyrra, heldur horfi fjárfestar fram á veginn. „Mér þætti óeðlilegt að tímabundin COVID-19 áhrif hefðu mikil áhrif á verðmatið, en ef um varanleg áhrif væri að ræða þá þyrfti vissulega að taka tillit til þeirra.“