Lífeyrir á hvern lífeyrisþega gæti fjórfaldast á hálfri öld og tekjur fólks á eftirlaunaaldri verða í mörgum tilfellum hærri en laun á almennum vinnumarkaði í dag.

Þetta var á meðal þess sem kom fram í erindi Benedikts Jóhannessonar, fyrrverandi fjármálaráðherra, á fulltrúaráðsfundi Birtu lífeyrissjóðs í fyrradag, þar sem hann gerði grein fyrir úttekt Talnakönnunar á lífeyriskerfinu.

Samkvæmt spá Talnakönnunar verða ellilífeyrisþegar 2,5 sinnum fleiri árið 2070 en þeir eru í dag en yfir sama tímabil mun ellilífeyrir tífaldast.

Það þýðir að lífeyrir á hvern ellilífeyrisþega getur fjórfaldast á næstu 50 árum.

„Það er tvennt sem veldur því,“ útskýrði Benedikt. „Annars vegar að iðgjaldið er hærra en áður var en líka kaupmáttaraukning á þessu tímabili.“

Ellilífeyrisréttindi úr lífeyrissjóðum hafa ekki náð viðmiðum um nægjanlegan lífeyri nema þegar almannatryggingalífeyri er bætt við, en samkvæmt úttektinni verður breyting á því.

Ef kaupmáttur eykst áfram um 1,5 prósent á hverju ári næstu 50 árin verða tekjur á eftirlaunaaldri í mörgum tilfellum hærri en laun eru nú á almennum vinnumarkaði.

Í erindinu var dregin upp sviðsmynd af því hvað ungt fólk getur búist við að fá út úr lífeyriskerfinu þegar það kemst á eftirlaunaaldur.

Lífeyrisréttindi þeirra sem nú eru að koma á vinnumarkað munu verða milli 70 og 100 prósent af meðallaunum þegar lífeyrir almannatrygginga er meðtalinn.

„Ef það sem ég er að segja stenst, er lífeyriskerfið býsna ásættanlegt,“ sagði Benedikt.