Gunnhildur Arnardóttir hefur starfað í áratugi á sviði mannauðsmála og hefur meðal annars verið mannauðsstjóri Samvinnuferða Landsýnar og Securitas. Gunnhildur er annar stofnanda Ceo Huxun/HR Monitor og starfar í dag sem framkvæmdastjóri Stjórnvísi og Ceo Huxun/HR Monitor auk þess sem hún er stjórnarformaður Íslensku ánægjuvogarinnar. Gunnhildur hefur mikinn áhuga á öllu sem tengist sjó og fer í sund hvenær sem færi gefst enda líður henni hvergi betur en í vatni.

Einn af hápunktum ársins í starfi Stjórnvísi er Uppskeruhátíð Íslensku ánægjuvogarinnar sem var afhent nýlega í 24. skipti á Grand hóteli og fleiri markaðir fengu viðurkenningu en nokkru sinni fyrr. „Það er stórkostleg upplifun og gefur gnótt góðra minninga að fylgjast með stoltum verðlaunahöfum taka á móti viðurkenningunni ár hvert,“ segir Gunnhildur.

Hún segir vinningshafana eiga það sameiginlegt að taka á móti viðurkenningunni með miklu þakklæti, gleði og auðmýkt. Meðal þess sem kemur fram í þakkarræðum verðlaunahafa eru setningar á borð við: „Þetta er viðurkenning til starfsfólksins fyrir framúrskarandi vel unnin störf.

Viðurkenningin er gríðarlega mikilvæg þar sem starfsfólkið leggur sig fram við að veita framúrskarandi þjónustu og um leið eiga ánægða viðskiptavini. Ein besta viðurkenning sem hægt er að fá. Niðurstaðan sem við bíðum spenntust eftir að fá. Veitir hvatningu til að gera enn betur.“ Gunnhildur segir verðlaunahafa staðfesta með þessum orðum mikilvægi mælingarinnar. ,,Rannsóknir hafa sýnt fram á að því ánægðari sem viðskiptavinir fyrirtækis eru, því betri af komu getur fyrirtækið gert sér vonir um. Og undirstaða ánægðra viðskiptavina er ánægt starfsfólk.“

Veit ekkert betra en vera niðri í fjöru með barnabörnunum, ein með sjálfri mér eða hundinum.

Hver eru þín helstu áhugamál?

„Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á heimspeki og stundað hana árlega með bekkjarfélögum síðan úr barnaskóla. Það er mikilvægt að spyrja sig krefjandi spurninga og ræða lífsins tilgang með frábærum leikfélögum. Ég elska sjóinn og allt sem honum tengist. Veit ekkert betra en vera niðri í fjöru með barnabörnunum, ein með sjálfri mér eða hundinum og heimilið er fullt af alls kyns sjávarfangi. Þegar ég varð sextug gaf bóndinn mér afmæliskort sem á stóð: „Nú er kominn tími til að anda með nefinu.“ Í pakkanum var stærðarinnar andarnefjubein sem prýðir besta staðinn í stofunni.

Svo er það ljóðalestur, ómögulegt að fara að sofa nema taka með sér eitt gott ljóð inn í svefninn. Einnig er ég félagi í Spirit of Humanity Forum sem gefur mér tækifæri til að stuðla að friði í heiminum, efla sjálfa mig og læra að þekkja mig betur.“

Hver er uppáhaldsbókin?

„Þær eru margar því ég er algjör lestrarhestur. Á fjöldann allan af bókum um heimspeki og les allar greinar og bækur sem ég kemst í um mannauðsstjórnun því þar brennur ástríða mín. Það eru því mikil forréttindi í lífinu hjá mér að vinna við það sem ég elska, að efla og þroska fólk. Eigi ég að nefna eina uppáhaldsbók þá er það Flow eftir Mihaly Csikszentmihalyi. Mihaly hefur varið lífinu í rannsóknir um hvað veitir fólki hamingju. Bókin útskýrir vel hvernig hamingjuna er að finna í litlu hlutunum.“

Hvað er eftirminnilegasta sumarfríið sem þú hefur farið í?

„Eitt eftirminnilegasta sumarfrí sem ég hef farið í var þegar við fögnuðum 60 ára afmæli bóndans og sigldum um Miðjarðarhafið með börnum og barnabörnum. Að vakna á nýjum stað og í nýju landi á hverjum degi var hreint út sagt himneskt.

Enn þá er oft talað um stytturnar í Pompei, göngu í 40 stiga hita upp á Akrópólishæð, Skakka turninn í Pisa, allar skoðunarferðirnar, góða matinn og skemmtunina um borð. Það sem kórónaði ferðina var að við sigldum út í júní 2016 á sama tíma og EM var í fótbolta. Þá var skemmtilegt að vera Íslendingur um borð.“