Núverandi og fyrrverandi liðsmenn hljómsveitarinnar Sigur rósar, þeir Jón Þór Birgisson, Orri Páll Dýrason, Georg Holm og Kjartan Sveinsson, hafa verið ákærðir af héraðssaksóknara fyrir meiri háttar skattalagabrot. Upphæðirnar sem fjórmenningunum er gefið að sök að hafa komist hjá að greiða rúmlega 150 milljónum króna.

Fréttablaðið greindi fyrst frá því í mars í fyrra að meðlimir Sigur rósar væru til rannsóknar vegna skattsvika. Rannsóknin hefur verið umfangsmikil og eignir fyrir 800 milljónir króna kyrrsettar.

Tónlistarmennirnir ástsælu hafa lýst því yfir að málin megi meðal annars rekja til mistaka endurskoðanda sem þeir hafi greitt fyrir að sjá um fjármál sín. Þeir væru tónlistarmenn með litla sem enga þekkingu á fjármálum og fyrirtækjarekstri. Ákærur héraðssaksóknara á hendur fjórmenningunum verða þingfestar þann 3. apríl næstkomandi.

Í ákærunni á hendur Jóni Þór Birgissyni, eða Jónsa söngvara sveitarinnar, er Gunnar Þór Ásgeirsson endurskoðandi hans einnig ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á skattframtölum söngvarans, gjaldárin 2014 og 2015. Alls eru því fimm manns ákærðir í málinu.

Er Jónsa gefið að sök að hafa ekki talið fram 75 milljónir af tekjum frá félögunum Von Andi Inc., Hopefully Touring Ltd. og Ess err ehf. né arðgreiðslur frá tveimur félaganna upp á 67,6 milljónir. Með því hafi hann komst hjá að greiða 30,6 milljónir í tekjuskatt og útsvar og fjármagnstekjuskatt að fjárhæð 13,3 milljónir.

Kjartan Sveinsson, Orri Páll Dýrason, Georg Holm og Jón Þór Birgisson eru allir ákærðir.

Bassaleikarinn Georg Holm er ákærður fyrir að láta undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum tekjur að fjárhæð tæpum 79 milljónum frá sömu félögum og arðgreiðslum frá Hopefully Touring að fjárhæð 47 milljónum. Á hann með þessu að hafa komist hjá að greiða tekjuskatt og útsvar að fjárhæð 35 milljóna og fjármagnstekjuskatt upp á 9,4 milljónir.

Trommuleikarinn Orri Páll Dýrason vantaldi tekjur upp á 82 milljónir frá félögum sveitarinnar og arðgreiðslur upp á 47 milljónir og þannig komist hjá greiðslu tekjuskatts og útsvars að fjárhæð 36,4 milljónir og fjármagnstekjuskatt að fjárhæð 9,4 milljónir.

Loks er hljómborðsleikarinn Kjartan Sveinsson ákærður fyrir að telja ekki fram tekjur upp á 42,2 milljónir frá Von Andi ehf. og Hopefully Touring Ltd.og þannig komist hjá að greiða tekjuskatt og útsvar að fjárhæð 18,6 milljóna.

Samkvæmt ákærunum sem Fréttablaðið hefur undir höndum eru málin öll álitin stórfelld og varða brotin allt að sex ára fangelsi en einnig sektum allt að tífaldri skattafjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn.