Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, fundaði með kollega sínum á Írlandi um fyrirhugaðan nýjan fjarskipta-sæstreng og mikilvægi þess að leyfismál og annað slíkt gangi vel fyrir sig á Írlandi fyrir skemmstu. „Umræðan á fundinum gaf ekki tilefni til annars en bjartsýni,“ segir hann.

Sigurður Ingi segir að á fundinum hafi meðal annars komið fram í samtali ráðherranna að Írar og Íslendingar séu að fást við hvort tveggja sambærilegar og ólíkar áskoranir í fjarskiptum, gagnaveraiðnaði og loftslagsmálum sem þeim tengjast.

„Fyrir það fyrsta þá búa hlutfallslega fleiri í dreifbýli á Írlandi en hér á landi, sem gerir þeirra „Ísland ljóstengt“-verkefni hlutfallslega umfangsmeira en hér á landi. Mikill fjöldi stórra gagnavera er þegar á Írlandi og fleiri eru þar á teikniborðinu. Uppbygging gagnavera hefur farið hægar af stað hér á landi. Þá kom einnig fram að raforkuframleiðsla fyrir gagnaver á Írlandi er ekki eins græn og hér á landi.“