Átökin eru dæmi um reiðina sem ríkir í landinu í garð kínverskra fjárfesta í námurekstri.
Slagsmálin brutust út á laugardaginn við PT Gunbuster Nickel Industry-verksmiðjuna, sem er í eigu kínverska fyrirtækisins Jiangsu Delong Nickel Industry Co. Talsmaður lögreglunnar segir að starfsmenn hafi beitt rörum og kastað steinum í miðjum átökum áður en þeir kveiktu í matsalnum, tugum herbergja og vélarbúnaði verksmiðjunnar.
Kínverjar hafa fjárfest gríðarlega í nikkelforða Indónesíu á undanförnum árum en nikkel er mikið notað í rafgeyma fyrir rafmagnsbíla og í stálframleiðslu. Ríkisstjórn Indónesíu heimilar ekki útflutning á hráu nikkeli og neyðast þar með erlendir fjárfestar til að reisa verksmiðjur sínar í landinu.
Fjárfestingin hefur meðal annars leitt til aukins fjölda kínverskra verkamanna í landinu og vilja indónesísk verkalýðsfélög meina að sú þróun taki störf frá heimamönnum. Mikil spenna hefur einnig verið í verksmiðjunni eftir vinnuslys sem varð til þess að tveir indónesískir starfsmenn brunnu til bana.