Á­tökin eru dæmi um reiðina sem ríkir í landinu í garð kín­verskra fjár­festa í námu­rekstri.

Slags­málin brutust út á laugar­daginn við PT Gun­bu­ster Nickel Indus­try-verk­smiðjuna, sem er í eigu kín­verska fyrir­tækisins Jiangsu Delong Nickel Indus­try Co. Tals­maður lög­reglunnar segir að starfs­menn hafi beitt rörum og kastað steinum í miðjum á­tökum áður en þeir kveiktu í mat­salnum, tugum her­bergja og vélar­búnaði verk­smiðjunnar.

Kín­verjar hafa fjár­fest gríðar­lega í nikkel­forða Indónesíu á undan­förnum árum en nikkel er mikið notað í raf­geyma fyrir raf­magns­bíla og í stál­fram­leiðslu. Ríkis­stjórn Indónesíu heimilar ekki út­flutning á hráu nikkeli og neyðast þar með er­lendir fjár­festar til að reisa verk­smiðjur sínar í landinu.

Fjár­festingin hefur meðal annars leitt til aukins fjölda kín­verskra verka­manna í landinu og vilja indónesísk verka­lýðs­fé­lög meina að sú þróun taki störf frá heima­mönnum. Mikil spenna hefur einnig verið í verk­smiðjunni eftir vinnu­slys sem varð til þess að tveir indónesískir starfs­menn brunnu til bana.