Gengið verður frá fjárhagslegri endurskipulagning Vaðlaheiðarganga á allra næstum vikum. Fjármagnskostnaður vegna framkvæmda sem fóru langt fram úr kostnaðaráætlunum á sínum tíma sligar rekstur ganganna sem annars eru rekin með lítilli yfirbyggingu.

Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, staðfestir í samtali við Markaðinn að viðræður séu í gangi. Enn eigi þó eftir að útfæra endurskipulagninguna. Aðspurður segir hann að ekki hafi verið rætt sérstaklega um að fá nýja hluthafa, til dæmis lífeyrissjóði, í félagið.

Eignarhald Vaðlaheiðarganga er tvískipt. Ríkissjóður fer með 33 prósenta hlut en Greið leið ehf., sem meðal annars er í eigu allra sveitarfélaganna á Norðurlandi eystra, fer með 66 prósenta hlut.

Eftir því sem Markaðurinn kemst næst er unnið að því að breyta skilmálum í lánasamningum í þeim tilgangi að létta á skuldabyrði félagsins og þá er einnig til skoðunar að ríkissjóður breyti hluta af lánum sínum í hlutafé.

Gert er ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir í lok mánaðarins en skuldir Vaðlaheiðarganga eru þá á gjalddaga.

Vaðlaheiðargöng voru opnuð í lok árs 2018 og gjaldtaka hófst stuttu síðar. Á árinu 2019, fyrsta rekstrarárinu, námu tekjur af innheimtu veggjalds ríflega 600 milljónum króna og umferðin á árinu var um 528 þúsund ferðir.

Vaðlaheiðargöng.JPG

Ófyrirséðar tafir á framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng höfðu í för með sér mikla kostnaðaraukningu, í formi framkvæmdakostnaðar og fjármagnskostnaðar, frá því sem upphaflega var áætlað en kostnaðaráætlun í upphafi hljóðaði upp á 8.730 milljónir króna á verðlagi ársins 2011. Þegar upp var staðið kostuðu göngin um 17 milljarða króna sem fengust í formi láns frá ríkissjóði. Vaxtagjöld Vaðlaheiðarganga á árinu 2019 námu tæplega 900 milljónum króna.

Þá urðu tafirnar til þess að tekjuöflun félagsins í formi innheimtu veggjalda hófst rúmlega tveimur árum síðar en áætlað var. Til stóð að umferð um göngin og innheimta veggjalda hæfist á haustmánuðum 2016.

Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf., segir að fækkun ferðamanna vegna Covid-19 hafi haft töluverð áhrif á reksturinn á síðasta ári. Heildarumferð á árinu var um 418 þúsund ferðir og dróst þannig saman um 20 prósent á milli ára.

Tekjur af innheimtu veggjalds drógust hins vegar saman um 27 prósent á milli ára og skýrist það aðallega af hlutfallslegri fækkun ferðamanna sem borga stakar ferðir í göngin. Í fyrra voru 28 prósent af greiddum veggjöldum stakar ferðir fólksbíla á meðan hlutfallið var 42 prósent á árinu 2019. Þá jókst sala á fyrirframgreiddum ferðum um 10 prósent á milli ára.

„Við erum með eins lítið utanumhald um þetta og hægt er en fjármagnskostnaðurinn er aðal­atriðið.“

Valgeir segir að rekstur Vaðlaheiðarganga hafi gengið ágætlega. Rekstrartekjur eru langt umfram rekstrargjöld og hefur félagið því ekki þurft að nýta sér neinar af þeim mótvægisaðgerðum sem stjórnvöld hafa boðið upp á vegna heimsfaraldurs.

Rekstrarkostnaður Vaðlaheiðarganga, sem er einungis með tvo starfsmenn á sínum vegum, nam um 165 milljónum króna árið 2019 og með hagræðingu náðist að minnka hann um 20 prósent á árinu 2020.

„Við höfum brugðist við tekjusamdrætti eins og hægt er með lækkun á rekstrarkostnaði félagsins,“ segir Valgeir.

„Við erum með eins lítið utanumhald um þetta og hægt er en fjármagnskostnaðurinn er aðal­atriðið. Við erum með mjög óhagstæð vaxtakjör miðað við það sem þekkist í dag og þess vegna skiptir miklu máli að endurfjármagna lánin svo reksturinn geti staðið undir sér í framtíðinni.“

Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf.
Fréttablaðið/Auðunn

Rekstraráætlun Vaðlaheiðarganga gerir ráð fyrir að umferðin í ár verði með svipuðu móti og hún var í fyrra. „Við gerðum okkur ekki neinar vonir um að rekstrarlægð sem Covid-19 heimsfaraldurinn veldur ferðaþjónustu myndi ganga til baka strax á þessu ári en við reiknuðum með að árið 2022 yrði þetta svipað og 2019. En fyrstu 18 vikur þessa árs eru töluvert betri en á sama tíma á síðasta ári. Uppsöfnuð umferð frá ársbyrjun er 33 prósentum meiri en á sama tímabili í fyrra og þrátt fyrir að lítið sem ekkert sé um erlenda ferðamenn hér á Norðurlandi,“ segir Valgeir.

Þá segir Valgeir að meiri reynsla sé komin á innheimtukerfið, sem byggist á sjálfsafgreiðslu. „Nú á tím­um heimsfaraldurs hefur viðhorf fólks til snertilausrar sjálfs­af­greiðslu stórlega breyst og er fólk mjög fljótt að læra á þetta þegar það prófar. Þá er einnig hægt að hlaða niður veggjalds-appi í snjall­síma og skrá þar allt að þrjú ökutæki á sama aðganginn. Kostnaður við inn­heimtuna lækkar á milli ára og í dag er innheimtukostnaður um 10 pró­sent af veggjaldstekjum og mun verða enn minni með meiri umferð í framtíðinni.“