Innlent

Lengja megi launafrystingu kjararáðshópa

Þingmenn nutu góðs af úrskurðum kjararáðs. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Viðskiptaráð Íslands telur góð rök hníga að lengri frystingu launa hjá kjararáðshópunum en ráðið skilaði umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð. 

Í meginatriðum er Viðskiptaráð því fylgjandi frumvarpinu en færð eru rök fyrir því að almennt séð sé frysting launa ekki nægilega löng. Samkvæmt frumvarpinu nær frystingin til 1. júlí 2019. 

Fyrst er vísað til þess að starfshópur um kjararáð hafi bent á að launaþróun innan kjararáðshópsins væri afar misjöfn.

„Til að mynda hafa ráðherrar hækkað um 64% frá 2013 til ársloka 2018 á meðan rammasamkomulag aðila á vinnumarkaði frá 2015 kveður á um 43%-48% hækkanir. Því væri ráð að halda launum ráðherra óbreyttum lengur en til 1. júlí nk. og a.m.k. nægilega lengi til að þau falli innan rammasamkomulagsins að viðbættum launahækkunum næstu misseri.“ 

Þá er tekin fyrir sú röksemd starfshópsins að með óbreyttum launum út árið 2018 verði launaþróun komin aftur í takt við almenna launaþróun.

„Sú röksemd er í sjálfu sér ágæt en hangir þó á þeirri forsendu að laun kjararáðshópanna hafi sögulega verið „rétt“, ef svo má að orði komast,“ segir í umsögninni.

Með því að miða við fyrri launasetningu sé hætta á svokallaðri akkerisskekkju (e. anchoring bias) sem getur valdið því að fólk tekur ákvarðanir byggðar einvörðungu á einhverju upphafsgildi algjörlega óháð því hversu skynsamlegt það er.

„Með þetta í huga má sannarlega velta því upp hvort frysting launa kjararáðshópanna sé nægilega löng. Þar að auki er ekki ofsögum sagt að lengri frysting, ekki hvað síst í tilfelli stjórnmálamanna, myndi gefa gott fordæmi í yfirstandandi kjaraviðræðum og mögulega liðka þar fyrir farsælum lausnum,“ segir Viðskiptaráð og bendir ennfremur á að samkvæmt skýrslu starfshópsins séu laun íslenskra ráðamanna há í alþjóðlegu samhengi þrátt fyrir smæð landsins.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Jón Diðrik fer úr stjórn Skeljungs

Innlent

Líf og sál til liðs við Siðferðisgáttina

Innlent

Sandra nýr verk­efna­stjóri Ís­lenska bygginga­vett­vangsins

Auglýsing

Nýjast

Horner dregur framboð sitt til baka

Tómas Már tekur sæti í stjórn Íslandsbanka

Loðdýrabú á Íslandi rekin með tapi frá 2014

Bjarni sest nýr í stjórn Símans

Hrönn fjórði stjórnandinn sem fer frá Sýn

Bjóða upp á fast leigu­verð í sjö ár

Auglýsing