Verðmat Jakobsson Capital er 14 prósentum lægra en markaðsvirði Brims var við lokun markaða í gær. Verðmatið, sem er 45,5 krónur á hlut, hækkaði frá síðasta verðmati um 9 prósent en það var birt í janúar. Gengi krónu hefur styrkst um 4,5 prósent á tímabilinu og því hækkaði verðmatið í krónum talið um 5 prósent.

„Það mætti halda að greinendur Jakobsson Capital væru að leggja stjórnendur Brims í einelti,“ segir í verðmatinu sem Markaðurinn hefur undir höndum. Er vísað til þess að greinendurnir hafa frá mars 2017 metið Brim umtalsvert lægra en markaðurinn.

„Fyrstu verðmöt voru við eða rétt yfir gengi á markaði. Rekstur Brims áður Granda dalaði mjög á árunum 2017 til 2019 og lækkaði verðmatsgengi samfara lakari afkomu en gengi á markaði stóð í stað. Ævintýralegur viðsnúningur var í rekstri á árunum 2019 og 2020 og var verðmatsgengi komið nærri markaðsgengi. Vissulega hefur loðnan jákvæð áhrif á rekstur en greinandi á þá bágt með að skilja mikla hækkun frá því síðasta hausti. Hærra olíuverð og sterkara gengi krónu hefur neikvæð áhrif á rekstur á móti meiri loðnu,“ segir í verðmatinu.

Samkvæmt erlendum kennitölusamanburði er verð Brims „í hærri kantinum“, segir í greiningunni. „Það kemur greinanda sérstaklega ekki á óvart. Verð innlendra sjávarútvegsfyrirtækja miðast oftast við verð aflaheimilda sem greinanda þykir hátt. Það er e.t.v. ekki tilviljun að innlend sjávarútvegsfyrirtæki horfi út fyrir landsteinana í fjárfestingu.“

Heildarvirði Brims, það er vaxtaberandi skuldir og hlutafé, í hlutfalli við hagnað fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EV/EBITDA) er 17 en miðgildið í samanburðarhópnum er 13,1. Hlutfallið er þó 33,2 hjá Bakkafrosti, 22,6 hjá Grieg Seafood og 20,6 hjá Salmar.