Á morgun er einn stærsti verslunar­dagur ársins, Svartur sunnu­dagur [e. Black Fri­day]. Greint var frá því á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna að smit undan­farna daga megi rekja til verslunar­mið­stöðva og síðar í dag á Vísi.is að smitin hafi komið upp hjá starfs­fólki í Kringlunni. Það reyndist þó ekki rétt.

Bæði í Kringlunni og í Smára­lind verður gripið til auka ráð­stafanna vegna mikils fjölda sem lík­lega verður saman­kominn á morgun til að nýta sér ýmis til­boð. Markaðs­stjórar hvetja við­skipta­vini til að skipu­leggja sig og til að nýta net­verslun.

Dreifa álagi með lengri opnunartíma

„Við erum í fyrsta lagi búin að lengja opnunar­tímann til mið­nættis í því skyni að dreifa að­sókn. Við getum ekki stöðvað þennan dag en þetta er við­leitni. Við hverjum í öðru lagi fólk til að undir­búa sig á netinu. Net­verslun á kringlan.is er öflug og tengd við verslanirnar. Þannig getur fólk undir­búið kaupin og haft tímann inni sem stystan. Við erum að reyna að dreifa á­lagi, hvetja fólk til að undir­búa sig eða bara versla á netinu,“ segir Bald­vina Snæ­laugs­dóttir, markaðs­stjóri Kringlunnar, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Það er grímu­skylda í allri Kringlunni, í verslunum og á göngu­götunni, og hefur verið í ein­hvern tíma að sögn Bald­vinu.

„Það hefur komið fram bæði hjá verslunar­eig­endum og Sam­tökum verslunar og þjónustu á­hyggjur af röðum sem myndast fyrir utan. Við höfum miklar á­hyggjur af þessu. Óháð verslunni þá mega bara tíu manns koma inn og það er að skapa vand­ræði og miklar á­hyggjur. Það er ekki okkar, það eru reglur sem við leggjum mikið upp úr að fylgja og sýna ítrustu var­úð,“ segir Bald­vina.

Hún segir að öryggis­gæsla Kringlunnar sjái um að tryggja að raðir skarist ekki en að verslanirnar sjái um að tryggja sótt­varnir inni í sínum rýmum. Flestir séu með starfs­menn sem telji inn og út og tryggi að við­skipta­vinir séu með grímur og spritti sig.

„Það eru ekki margar búðir sem hafa myndast raðið í en við vitum auð­vitað ekki hver staðan verður á morgun. Það eru allir í við­bragðs­stöðu á vaktinni. En okkar sterkasta vopn á morgun er að lengja opnunar­tímann og hvetja fólk til að skipu­leggja kaupin vel ef það ætlar að koma,“ segir Bald­vina.

Hún í­trekar einnig að það komi bara einn úr hverri fjöl­skyldu með inn­kaupa­lista.

„Fólk þarf að vera ein­beitt og það hefur verið það. Verslunar­eig­endur tala mikið um að það er of­boðs­lega mikil breyting á kaup­hegðun. Fólk kemur á­kveðið inn, veit hvað það ætlar að fá og ætlar að vera snögg að því,“ segir Bald­vina.

Hún segir að ef fólk nýti sér net­verslun séu póst­box sem sé hægt að sækja í til 23 á kvöldin og svo Ís­lands­póstur einnig með póst­box og minnir að lokum á grímur, hand­þvott, spritt og per­sónu­legar sótt­varnir.

Baldvina Snælaugsdóttir er til vinstri og Tinna Jóhannsdóttir til hægri.

Aukinn þungi í netverslun

Tinna Jóhanns­dóttir, markaðs­stjóri Smára­lindar, segir stöðuna svipaða hjá þeim.

„við erum statt og stöðugt að reyna að fylgja tveggja metra reglunni á göngu­götunni okkar og huga að því að fólk fylgi þeim eftir í hví­vetna. Við erum með öflugar sótt­varnir og það er grímu­skylda í öllu húsinu og erum með alla okkar anga í að fylgja því eftir,“ segir Tinna.

Hún segir að það sé aukinn þungi í net­verslun hjá verslunum á Black Fri­day og að þau hafi reynt að miða sína markaðs­starfi að því að hvetja fólk til að nýta sér þann mögu­leika. Þá sé einnig opið til 22 til að reyna að dreifa í á­lagi.

„Raðir fyrir utan verslun þar sem að­eins tíu mega vera inni eru hægar og fólk í­lengist ekki í húsinu ef þú þarft að bíða í 40 mínútur til að koma í eina verslun. Þess vegna höfum við verið að hvetja fólk til að nota net­verslunina ef það ætlar að versla,“ segir Tinna.

Spurð hvort það verði aukið við öryggis­gæslu á göngu­götu Smára­lindar á morgun segir hún að það hafi verið aukið við hana þegar raðir byrjuðu að lengjast.

Hún segir að þau finni mikið fyrir breyttri kaup­hegðun og fólk sé tals­vert ein­beittara þegar það kemur í húsið.

„Það eru af­skap­lega fáir sem eru að rölta um húsið í dag. Þú ferð ekkert inn í Smára­lind í dag til að hoppa í sjö verslanir og skoða. Þú nennir ein­göngu að bíða í röðinni ef það er eitt­hvað sem þú ætlar að sækja inni í versluninni. Það hefur klár­lega mikið breyst. Fólk er komið inn í húsið í mjög á­kveðnum til­gangi. Hver einn og einasti við­skipta­vinur sem er kominn inn í hús og í röð er kominn til að kaupa og mun klára söluna inni í húsi,“ segir Tinna.

Fréttin hefur verið leiðrétt eftir að tilkynnt var að engin smit hafi komið upp hjá starfsfólki Kringlunnar 26.11.2020 klukkan 16:42.

Það eru ekki margir sem fara í Smáralind til að skoða þessa dagana.
Fréttablaðið/Ernir